Erlendur í Unuhúsi – „En honum á ég flest að þakka“ 

06/06 2023

Þáttaröðin Litli rauði trékassinn fjallar um vinskap Erlendar og Halldórs Laxness, Nínu Tryggvadóttur og Þórbergs Þórðarsonar. Þættirnir eru aðgengilegir í spilara RÚV.

Erlendur í Unuhúsi er yfir og allt um kring á Gljúfrasteini þessa dagana. Sýning um hann opnaði í móttöku safnsins þann 3. júní undir yfirskriftinni „En honum á ég flest að þakka“. Á sýningunni má meðal annars sjá ljósmyndir af Erlendi í góðra vina hópi og orgel í anda organistans í Atómstöðinni, en Erlendur var fyrirmynd þeirrar persónu að hluta. Sýningarskrá samanstendur af ljósmyndum og umfjöllun um Erlend, Unuhús og gesti þess auk þess sem sjónum er beint að vinskap Erlendar og Halldórs Laxness. Hönnuður sýningarinnar um Erlend er Unnar Örn Auðarson. Sýningin stendur yfir í móttöku safnsins í allt sumar. 

Í tengslum við sýninguna var útvarpsþáttaröðin Litli rauði trékassinn flutt á Rás 1 um síðastliðna hvítasunnuhelgi. Í þremur þáttum tileinkuðum Erlendi kynnumst við manninum í gegnum augu vina hans, þeirra Þórbergs Þórðarsonar, Halldórs Laxness og Nínu Tryggvadóttur. Í þáttunum er sjónum auk þess beint að rýminu Unuhúsi og því sem einkenndi það, sem og listinni sem var að brjótast upp á yfirborðið á þessum tíma. Sunneva Kristín Sigurðardóttir hefur umsjón með þáttunum, en viðmælendur hennar eru Pétur Gunnarsson, Soffía Auður Birgisdóttir, Jón Karl Helgason, Rósa Magnúsdóttir, Halldór Guðmundsson, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir og Aðalsteinn Ingólfsson. Þættina má nálgast í spilara RÚV. 

Á afmælisdegi Erlendar, þann 31. maí síðastliðinn, leiddu svo Sunneva Kristín Sigurðardóttir og Jón Karl Helgason bókmenntagöngu á slóðum Erlendar í Unuhúsi. Þar var slegist í för með þeim Halldóri Laxness, Þórbergi Þórðarsyni og Nínu Tryggvadóttur um Grjótaþorpið og Þingholtin og rifjuð upp kynni þeirra og fleiri nafntogaðra listamanna af mæðginunum Unu Gísladóttur og Erlendi í Unuhúsi. Gangan var samstarfsverkefni Gljúfrasteins – húss skáldsins og Borgarsögusafns. Þátttaka var með besta móti – og veðrið sömuleiðis.  

Safnastjóður styrkir verkefnið.