Elif Shafak hlýtur alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness

12/09 2021

Elif Shafak í vinnuherbergi Halldórs Laxness á Gljúfrasteini  

Tyrknesk-breski rithöfundurinn Elif Shafak tók við verðlaununum í Veröld - húsi Vigdísar síðdegis í gær en þau eru veitt höfundum sem eru þekktir fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum. Það var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem afhenti verðlaunin. Elif Shafak kom í heimsókn á Gljúfrastein áður en hún tók við verðlaununum í gær. Hún skoðaði safnið og fékk að gjöf bókina The Islander sem er ævisaga Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson.
Elif Shafak er fædd í Strassburg í Frakklandi í lok október árið 1971 og verður því fimmtug í næsta mánuði. Hún ólst upp í Ankara í Tyrklandi. Hún hefur sent frá sér nítján bækur, þar af tólf skáldsögur og hafa bækur hennar verið þýddar á 55 tungumál. Tvær skáldsögur Shafak hafa komið út í íslenskri þýðingu. Það eru Heiður í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur og bókin 10 mínútur og 38 sekúndur sem Nanna Þórisdóttir þýddi en bókin var meðal annars tilnefnd til hinna virtu Booker verðlauna. Hún hefur auk þess hlotið fjölda annarra tilnefninga og viðurkenninga fyrir verk sín. Elif Shafak er þekkt baráttukona fyrir mannréttindum og þá sérstaklega kvenréttindum, málefnum hinsegin fólks og ýmissa jaðarhópa. 

Þetta er í annað sinn sem alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness eru afhent en það var breski rithöfundurinn Ian McEwan sem fyrstur hlaut verðlaunin. Það var árið 2019. Þau eru afhent annað hvert ár í tengslum við Bókmenntahátíð í Reykjavík. Að verðlaununum standa forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðherra, Íslandsstofa, Gljúfrasteinn, Forlagið, sem er útgefandi verka Halldórs Laxness auk Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Í valnefnd verðlaunanna sátu Ian McEwan, Eliza Reid forsetafrú og Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík.