Bach, Graupner, Heinichen og íslensk sönglög á sunnudaginn kl. 16

05/06 2012

Chalumeaux tríóið og Margrét Bóasdóttir

Margrét Bóasdóttir og Chalumeaux tríóið koma fram á Gljúfrasteini sunnudaginn 10. júní klukkan 16. Aðgangseyrir er 1.000 kr.

Á efnisskrá tónleikanna eru þrjú stutt verk eftir barokktónskáldin Bach, Graupner og Heinichen í umritun fyrir klarínettutríó auk íslenskra sönglaga við ljóð Jónasar Hallgrímssonar og Halldórs Laxness. Margrét Bóasdóttir söngkona hefur oft áður komið fram með Chalumeaux tríóinu á tónleikum víðsvegar um landið en tríóið skipa Ármann Helgason, Kjartan Óskarsson og Sigurður Ingvi Snorrason.

Chalumeaux-tríóið var stofnað árið 1990 af klarínettuleikurunum Kjartani Óskarssyni, Óskari Ingólfssyni og Sigurði Ingva Snorrasyni. Á verkefnaskrá tríósins eru verk sem spanna alla sögu klarínettuhljóðfæranna eða frá um 1730.  Auk þess að leika upphafleg verk eftir tónskáld á borð við Mozart hafa þeir Kjartan og Sigurður  umritað fjölda verka fyrir tríóið. Meðal þessara verka eru fjölmargar aríur úr óperum Mozart og Salieri sem tríóið flutti ásamt þremur söngvurum. Þá hafa mörg íslensk tónskáld skrifað verk fyrir tríóið.

Ármann Helgason hefur nú tekið sæti Óskars Ingólfssonar sem lést 2009.

Heildardagskrá stofutónleika sumarsins má sjá á heimasíðu Gljúfrasteins.