Auður í 100 ár

30/07 2018

Auður Sveinsdóttir Laxness

100 ár eru í dag liðin frá fæðingu Auðar Sveinsdóttur Laxness. Auðar verður minnst með ýmsum hætti á næstunni. Í dag verður opnuð sýning tileinkuð henni á Gljúfrasteini þar sem hönnun hennar og handverk verður í öndvegi.  Sýningin ber yfirskriftina ,,Frjáls í mínu lífi" en setningin er tekin úr viðtali sem Fríða Björk Ingvarsdóttir átti við Auði árið 2002 þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Halldórs Laxness. Í viðtalinu sagðist Auður ávallt hafa lifað ákaflega góðu lífi á Gljúfrasteini. Hún hafi verið sjálfstæð og gert það sem hún vildi. Auður var í raun framkvæmdastýra hússins, húsfreyjan sem sá um allt á Gljúfrasteini og í frítíma sínum naut hún þess að sauma út og prjóna og eftir hana liggja mörg afar falleg listaverk. Eitt þeirra er púðinn Landaparís sem Auður saumaði út undir áhrifum frá Pablo Picasso. Nú er búið að útbúa uppskrift að púðanum Landaparís og verður hún til sölu í fallegri gjafaöskju í safnabúðinni að Gljúfrasteini í tilefni aldarafmælisins. 

Sýningin ,,Frjáls í mínu lífi" verður opin almenningi frá og með þriðjudeginum 31.júlí og er fólk beðið um að bóka leiðsögn fyrirfram í síma 586 8066 eða í gegnum netfangið gljufrasteinn@gljufrasteinn.is