Auður Sveinsdóttir látin

30/10 2012

Auður Sveinsdóttir lést í gær, 29. október, 94 ára að aldri. Hún var fædd á Eyrarbakka hinn 30. júlí árið 1918. Foreldrar hennar voru Sveinn Guðmundsson járnsmiður og Halldóra Jónsdóttir, starfskona á sýsluskrifstofunni á Eyrarbakka. Þegar Auður var sjö ára gömul fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og settist að á Bárugötunni.

Auður vann með gagnfræðaskóla sem blaðberi og bar út nýjustu fréttir frá útlöndum til borgarbúa. Að loknu gagnfræðaprófi hóf hún að vinna sem einkaritari og röntgentæknir á Landsspítalanum í Reykjavík.  Þegar Bandalag starfsmanna ríkis og borgar (BSRB) var stofnað varð Auður fulltrúi röntgenkvenna þar. Auður var nítján ára þegar hún kynntist Halldór Laxness á Laugarvatni. Fjórum áratugum síðar rifjaði hún upp þessa samfundi þeirra: „Við Halldór fórum út að ganga að kvöldi til. Við gengum svolítinn spöl inn dalinn og settumst á þúfu við lítinn læk. Stuttu síðar teygði Halldór sig eftir blómi yfir öxlina á mér, og þar með voru forlögin ráðin.“ Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1945 vélritaði Auður upp samning um byggingu Gljúfrasteins. Skömmu síðar var hafist handa við byggingu hússins. Auður hélt um alla þræði varðandi framkvæmdir við bygginguna. Halldór og Auður giftu sig á aðfangadag sama ár og fluttu inn í Gljúfrastein. Það voru án efa mikil viðbrigði fyrir Auði að flytja frá Bárugötunni í Reykjavík upp í Mosfellsdal. Á þessum tíma voru samgöngur t.d. með öðrum hætti en nú er og og hús þeirra stóð á berangri. Auður taldi sig lánsama að hafa fljótlega kynnst ágætri konu sem bjó þarna í dalnum, Birtu Fróðadóttur, sem var danskur arkitekt og bjó með manni sínum í Dalsgarði. Birta aðstoðaði Auði t.d. við að innrétta húsið, búa það húsgögnum og velja liti á herbergin.

Mikill gestagangur var jafnan á Gljúfrasteini og ævinlega vel tekið á móti fólki, heitt á könnunni allan sólarhringinn. Auður lýsti hlutverki sínu á heimilinu sem miðlunarstarfi. Hún tók á móti gestum, sá um samskipti skáldsins við íslenskar og erlendar stofnanir og fjölmiðla og skipulagningu veisluhalda og tónleika. Hún var einnig nánasti samstarfsmaður Halldórs, vélritaði upp eftir handritum hans og sumar bækur hans oftar en einu sinni. Eftir að Halldór Laxness hafði hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum tók Gljúfrasteinn á sig mynd eins konar menningarlegs sendiráðs Íslands og var algengt að koma þar við með erlenda opinbera gesti til þess að heilsa upp á Nóbelsskáldið.

Auður var annáluð hannyrðakona og má sjá ýmsa fallega muni eftir hana á Gljúfrasteini. Hún hafði sterkar skoðanir á handverki og minjagripagerð og skrifaði um það greinar í tímarit. Í grein sem hún skrifaði í Hug og hönd árið1974 kynnti hún fjögur veggteppi sem gerð voru á 20. öld og greindi þau. Hún segir: „Það hafa alltaf verið til konur á Íslandi sem samið hafa útsaum sinn á sama hátt og málarar. Teppin eru oft gerð í vissum tilgangi, til að hylja gat á vegg, eða til gjafa þegar lítið er til að kaupa fyrir.“ Hugmyndir Auðar um endursköpun á íslenskum listarfi og handbragði birtist skýrt í þekktasta verki hennar, Maríuklæðinu svokallaða, sem hún saumaði í tilefni af því að Halldór hlaut Nóbelsverðlaunin. Púðar hennar og peysur bera hugmyndaauðgi hennar og fallegu handbragði vitni.

Árið 2002, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Halldórs Laxness, gaf fjölskylda skáldsins íslensku þjóðinni allt innbú að Gljúfrasteini sem tilheyrði heimili Auðar og Halldórs, en íslenska ríkið keypti húsið og listaverkin sem prýða það. Gljúfrasteinn átti að verða safn til að heiðra minningu skáldsins. Gjöfin fjölskyldunnar var höfðingleg og er einstök.

Auðar er minnst með þakklæti og er fjölskyldu hennar færðar samúðarkveðjur við andlát hennar.


Árið 2002 tók Fríða Björk Ingvarsdóttir viðtal við Auði sem birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins. Hér má lesa það í heild sinni.