Auður á Rás 1

18/07 2014

Auður Sveinsdóttir við störf á röntgendeild Landspítalans en þar vann hún sem einkaritari og röntgentæknir eftir að gagnfræðanámi lauk. Fyrstu árin eftir að hún og Halldór Laxness giftu sig (1945) hélt hún áfram að vinna á Landspítalanum.

Í ágúst opnar sýning í Listasal Mosfellsbæjar um ævi og starf Auðar Sveinsdóttur á Gljúfrasteini. Af þessu tilefni mun Marta Guðrún Jóhannesdóttir safnafræðingur flytja þriggja þátta röð um Auði á Rás 1 og er fyrsti þátturinn á dagskrá næstkomandi sunnudaginn 20. júlí. Í þáttunum verður fjallað um ýmislegt sem tengist lífi Auðar, þar á meðal vináttu hennar og Nínu Tryggvadóttur listamanns, hannyrðir, textílverk, greinaskrif og fyrrnefnda sýningu.

Í þættinum sem fluttur verður á sunnudaginn kl. 10.15 munu Tinna Hrafnsdóttir og Vigdís Hrefna Pálsdóttir lesa upp úr bréfum Auðar Sveinsdóttur og Nínu Tryggvadóttur frá árunum 1954 til 1968 auk þess sem flutt verða brot úr verkum Halldórs Laxness úr safni Ríkisútvarpsins ásamt öðru efni sem tengist vinkonunum Auði og Nínu. Þátturinn verður endurfluttur 22. júlí kl. 13.00 auk þess sem hægt verður að hlusta á hann á Sarpi RÚV.

Marta hefur nýlokið meistaraprófi í safnafræði og vann rannsókn fyrir lokaverkefni sitt á Gljúfrasteini. Verkefnið sneri að rannsókn á ferli og verkum Auðar og miðaði að því að auka við vitneskju um hlut Auðar í þeirri arfleifð sem hlutverk Gljúfrasteins er að miðla. Sýningin í Listasal Mosfellsbæjar og útvarpsþáttaröðin byggja á þessum rannsóknum. Til að fræðast meira um verkefni Mörtu má smella á tengilinn hér að neðan.

Ritgerð Mörtu, sem ber titilinn Auður á Gljúfrasteini: rithöfundasöfn og rannsóknir, má finna á Skemmunni.