Arkítekt Gljúfrasteins

14/04 2010

Gljúfrasteinn í kringum 1956

Arkítekt Gljúfrasteins sem byggður var 1945 var Ágúst Pálsson (1893 – 1967). Hann var ekki einn af þeim stóru en starfaði með mönnum eins og Guðjóni Samúelssyni og Einari Sveinssyni. Meðal þekktra bygginga eftir Ágúst eru Neskirkja og Malarrifsviti sem þykir sérstakur og er nú friðaður.

Teikninguna af Gljúfrasteini hafði Ágúst, í upphafi árs 1945, sent í samkeppni um prófessorsbústaði við Háskóla Íslands og hlotið fyrir fyrstu verðlaun ásamt teikningu annars arkítekts. Allir vildu byggja hús eftir þann arkítekt en teikningum Ágústs var ýtt út af borðinu.

Hann og Halldór voru ágætir kunningjar og höfðu líklega kynnst hjá Erlendi í Unuhúsi. Það fór því þannig að Ágúst bauð Halldóri þessa teikningu þegar byggingaráætlanir Halldórs komu til tals og þannig varð prófessorsbústaður að skáldabústað, Gljúfrasteini.

Ætla má að einhverju hafi verið breytt frá samkeppnisteikningum af prófessors- bústaðnum en óljóst er hvaða breytingar voru gerðar til að laga þær að hugmyndum skálds sem vildi byggja sæmilega rúmgott sveitahús án íburðar, en þó ekki sveitabæ, efst í Mosfellsdal.