Aldarafmæli Børge Mogensen og Hans J. Wegner minnst

11/09 2014

Halldór í Veiðistólnum

Á Gljúfrasteini eru ýmis húsgögn eftir þekkta hönnuði, ekki síst frá Danmörku. Nægir þar að nefna Eggið eftir Arne Jacobsen. Halldór og Auður fengu stólinn í Kaupmannahöfn, enda ekki auðvelt að fá slíka hluti á Íslandi um miðja síðustu öld. Eggið var oft órjúfanlegur bakgrunnur á ljósmyndum af Halldóri. Lági leðurstóllinn, Veiðistóllinn eða The hunting chair, eftir danska hönnuðinn Børge Mogensen, var í sérstöku uppáhaldi hjá Halldóri Laxness. Auður Sveinsdóttir, kona Halldórs, hafði á orði að það hefði enginn setið í þessum stól nema Halldór og að hann hafi haft alveg sérstakt lag á að standa upp úr honum.

Í ár er liðin öld frá fæðingu Børge Mogensen (1914-1972). Af því tilefni gerir Hönnunarsafnið í Kaupmannahöfn honum góð skil. Annar merkur hönnuður Hans J. Wegner (1914-2007) hefði einnig orðið 100 ára. Þess er minnst í Hönnunarsafninu í Kaupmannahöfn með sýningunni Bare een god stol og í fæðingarbæ Wegners, Tönder þar sem listasafnið býður upp á sýninguna "Et nordisk designikon fra Tønder". Í stofunni á Gljúfrasteini er að finna baststól hannaðann af Wegner.