55 ár síðan Dúfnaveislan var frumsýnd í Iðnó

29/04 2021

Í dag, 29. apríl eru 55 ár síðan leikritið Dúfnaveislan eftir Halldór Laxness kom í bókaverslanir og um kvöldið var leikritið frumsýnt í Iðnó. Sagt var frá útkomu bókarinnar og frumsýningu leikritsins í flestum dagblöðum þennan dag fyrir 55 árum og rætt við skáldið. Í viðtölum við blaðamenn sagði Halldór Laxness meðal annars að Dúfnaveislan væri skemmtunarleikur, skrifuð fólki til skemmtunar ,,og ef hún nær ekki þeim tilgangi er hún tilgangslaus,” sagði Halldór Laxness á blaðamannafundi sem haldinn var á frumsýningardaginn. Sveinn Einarsson sem þá var leikhússtjóri lét þess getið á fundinum að mikill áhugi væri á leikritinu og að þegar væri uppselt á tvær sýningar. Halldóri Laxness þóttu þetta góð tíðindi ,,síst vil ég verða til þess að setja leikhúsið á hausinn,” sagði Halldór. Skömmu áður hafði leikritið Prjónastofan Sólin, eftir Halldór verið frumsýnt í Þjóðleikhúsinu og sagðist hann á blaðamannafundinum vera ánægður með þá dóma sem verkið hefði fengið. Hann sagði það ávallt meðmæli fyrir leikrit, að menn greindi á um það. Hann sagði að leikdómar opinberuðu fremur innræti og sálarástand þeirra sem dæmdu, en það sem dæmt væri. Halldór sagði einnig að Prjónastofan Sólin og Dúfnaveislan væru mjög ólík leikhúsverk, Prjónastofan væri meira á breiddina, Dúfnaveislan meira á dýptina.

Dúfnaveislan varð afar vinsæl sýning sem gekk á annað ár og urðu sýningarnar alls 64, segir í bókinni Halldór Laxness - ævisaga eftir Halldór Guðmundsson sem kom út árið 2004. Þar segir einnig að það hafi verið eindregin tilmæli Halldórs Laxness að Þorsteinn Ö. Stephensen léki pressarann, aðalhlutverk sýningarinnar en Þorsteinn hlaut síðar, Silfurlampann, verðlaun gagnrýnenda, fyrir túlkun sína á pressaranum. 

Í bókinni Skeggræður gegnum tíðina, samtalsbók Matthíasar Johannessens og Halldórs Laxness sem kom út á sjötugsafmæli Halldórs árið 1972 skrifar Matthías að kannski hafi Halldór aldrei staðið nær neinni persónu en pressaranum í Dúfnaveislunni: ,,Halldór Laxness hefur ávallt gert sér grein fyrir því að þeir standa höllum fæti, sem vilja halda trúnað við hjarta sitt. Þetta er oft inntak í verkum hans, Prjónastofunni og Dúfnaveislunni, svo dæmi séu nefnd. Kannski hefur hann aldrei staðið nær neinni persónu en pressaranum – manninum, sem bauð allri símaskránni í veizlu; einu bókinni þar sem merkilegir menn standa við hliðina á ómerkilegum. Það er í Halldóri Laxness, sem þeir eiga allir bágt, hver á sinn hátt. Honum hefur hvorki glapnað heyrn né sýn. 
Í verkum hans kenna aðrir ekki aðeins til. Þeir læra einnig að lifa."   

Hér má að lokum lesa samtal sögumanns í Dúfnaveislunni við pressarann og eiginkonu hans:

,,Hvernig er hægt að græða fé sem þarf til að geta boðið heim símaskránni? spyr ég.
Á buxnapressun, svaraði maðurinn. Því miður.
Því miður?
Já, sagði hann. Ég gat ekki að því gert. Ég er svo heimskur að ég gat ekki lært til skraddara einsog til stóð. Þeir sögðu ég bískæri hverja pjötlu. Og ég slasaði mig á nálinni. Þeir kendu mér að pressa buxur af því ég hafði ekki gáfur í meira.
Sitthvað hafið þér nú lært meðan þér voruð að pressa allar þessar buxur, ekki trúi ég öðru, segi ég.
Ég hef lært að veröldin hefur einn kost, sagði maðurinn. Og hann er sá að hún gerir aungan mann vitrari í dag en hann var í gær.
Guð er altaf jafnstór, sagði konan."