200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar

17/06 2011

Jón Sigurðsson (1811-1879)

Þann 17. júní voru 200 ár liðin frá því að Jón Sigurðsson fæddist að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Í tilefni þessara tímamóta birtast hér á vefsíðu Gljúfrasteins í heild sinni þrjár greinar sem Halldór Laxness skrifaði um sjálfstæði þjóðarinnar og íslenskt þjóðerni. Fyrsta greinin birtist hér í dag, „Ræða 1. desember 1935“ sem útvarpað var á fullveldisdeginum frá svölum Alþingishússins. Næstu vikurnar verða birtar tvær aðrar greinar sem Halldór skrifaði um íslenskt sjálfstæði.

Jón fæddist þann 17. júní 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð, sonur séra Sigurðar Jónssonar og Þórdísar Jónsdóttur. Jón sigldi til Kaupmannahafnar 1833 til að læra málfræði og sögu og var eftir það búsettur í Kaupmannahöfn. Árið 1845 giftist Jón frænku sinni, Ingibjörgu Einarsdóttur, sem flutti út til hans til Kaupmannahafnar. Þeim varð ekki barna auðið, en árið 1859 tóku þau Sigurð Jónsson að sér, systurson Jóns, og gengu honum í foreldra stað.

Jón varð þingmaður eftir að Alþingi var endurreist 1845 og eftir 1849 var hann oft kjörinn forseti Alþingis. Hann sat á þingi til dauðadags og hann barðist af  krafti fyrir sérstakri stjórnarskrá fyrir Íslendinga. Frægur er þjóðfundurinn árið 1851 þegar Trampe greifi konungsfulltrúi sleit fundi fyrirvaralaust þegar íslensku fulltrúarnir vildu leggja fram eigið frumvarp. Þá stóð Jón upp og mótmælti, en aðrir fundarmenn tóku undir orð Jóns og hrópuðu einum rómi: „Vér mótmælum allir“.

Jón lést 7. desember 1879 í Kaupmannahöfn og dó Ingibjörg kona hans 11 dögum síðar.

Forsætisráðuneytið hefur sett upp vef um Jón Sigurðsson, ævi hans, störf og íslenska sjálfstæðisbaráttu, í tilefni af 200 ára afmælinu.

Tvö söfn eru helguð Jóni Sigurðssyni, Hrafnseyri í Arnarfirði þar sem Jón var fæddur og ólst upp og Jónshús í Kaupmannahöfn þar sem Jón og Ingibjörg bjuggu frá 1852 til dauðadags 1879.