Prjónauppskriftir
Auður var annáluð handavinnukona. Eftir hana liggja margir fallegir gripir sem sjá má á Gljúfrasteini. Uppskriftir hennar hafa birst í tímaritum og fékk hún m.a. viðurkenningu árið 1970 í hekl - og prjónasamkeppni Álafoss fyrir frumlega útgáfu af íslensku skotthúfunni. Á þessari síðu verður safnað saman þeim uppskriftum sem liggja eftir Auði og hafa birst á prenti.
Skotthúfa frú Auðar
Árið 1970 hlaut Auður viðurkenningu fyrir prjónaða skotthúfu í hekl- og prjónasamkeppni Álafoss árið 1970. Uppskriftin er aðgengileg á vef Heimilisiðnaðarfélags Íslands.
Garðaprjónuð peysa með ílepparósum
Uppskrift Auðar að garðaprjónaðri peysu með ílepparósum birtist fyrst í ársriti Heimilisiðnaðarfélagsins Hug og hendi árið 1977. Peysan ber vott um hugkvæmni Auðar og stíl en í henni má sjá hvernig Auður notar hið þekkta munstur áttablaðarósina á nýjan og frumlegan máta. Áttablaðarósin er eitt algengasta munstrið í íslenskum hannyrðum og birtist víða í ólíkum myndum. Elsa E. Guðjónsson (1924–2010), deildarstjóri textíl- og búningafræðideildar Þjóðminjasafns Íslands og sú sem hvað mest hefur rannsakað og ritað um íslensk textílverk og hannyrðir, komst svo að orði í greininni Ílepparósir og aðrar rósir að áttablaðarósir væru „svo til á hverju blaði í gömlu sjónabókunum, og hvort heldur litið er á gamlar ábreiður eða altarisklæði, sessur, linda eða íleppa, blasa nær alls staðar við áttablaðarósir í einhverri mynd.“
Virðing Auðar og áhugi fyrir hefðinni leynir sér ekki síður í þessari peysu en í öðrum verkum hennar þar sem gjarnan mætast gamlar hefðir og framúrstefnulegar nýjungar. Peysan sem sést á myndinni prjónaði Auður sjálf og er hún nú í eigu dóttur Auðar, Guðnýjar Halldórsdóttur. Á sýningunni Auður á Gljúfrasteini – fín frú, sendill og allt þar á milli, sem stóð yfir í Listasal Mosfellsbæjar haustið 2014, var peysan sýnd ásamt öðrum verkum Auðar.