Safnið í sófann
31/03 2020Gljúfrasteinn og önnur söfn í landinu eru lokuð vegna samkomubanns. Starfsfólk situr þó ekki auðum höndum og hefur síðustu daga bætt ýmsu við á vefsíður til að gleðja og stytta fólki stundir. Það á líka við um samfélagsmiðla og nú er hægt að finna ýmislegt undir myllumerkinu #safniðísófann.
Á vef Gljúfrasteins er að finna mikinn fróðleik um ævi og verk Halldórs Laxness og um fjölskylduna sem bjó á Gljúfrasteini. Einnig er á heimasíðunni hægt að skoða hannyrðir Auðar Laxness og greinar sem hún skrifaði um hannyrðir í ýmis tímarit. Þá er hér í blaðinu Hugur og hönd frá árinu 1977 meðal annars að finna uppskrift Auðar að garðaprjónapeysu með íleppurósum. Hér er hægt að skoða uppskrift Auðar að Vestfirsku peysunni
Á vefnum innansveitarkronika.is er hægt að hlusta á upplestur Halldórs Laxness á Innansveitarkroniku en í ár eru liðin 50 ár frá því að bókin kom út. Þar er einnig hægt að finna rafbókina. Á vefnum er líka fróðleikur um sögusviðið og persónur sögunnar. Vefurinn um Innansveitarkroniku er samstarf Gljúfrasteins, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Forlagsins, Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og fjölskyldu Halldórs Laxness.
Innansveitarkronika kom út í september árið 1970 og sagði þá í bókakynningu að sagan væri rituð ,,af snillingi skáldsögunnar að skemmta sjálfum sér”.

Stofan á Gljúfrasteini