Plöturnar hans Halldórs

Guðni Tómasson, tónlistarunnandi og dagskrárgerðarmaður á Rás 1 kemur í heimsókn á Gljúfrastein, sunnudaginn 3. október klukkan 16.00.

Guðni ætlar að grúska í plötusafni skáldsins en við sögu koma einnig erindi Halldórs sem hann flutti um tónlist í Ríkisútvarpinu og dýrgripir sem leynast í safni hans. 
Leikin verða tóndæmi og sagt frá þeirri tónmenningu sem áður ríkti á Gljúfrasteini.
Úr verður samtal við gesti og jafnvel útvarpsþáttur í leiðinni. 

Halldór Laxness hafði mikla unun af sígildri tónlist. Hann dáði Bach en botnaði lítið í Brahms, svo dæmi séu nefnd. Í stofunni á Gljúfrasteini stendur forláta flygill sem skáldið var vant að leika á sér til ánægju en jafnvel stóð til á tímabili að hann legði tónlistina fyrir sig. Og úti í horni stendur plötuspilari með ýmsu forvitnilegu.
 
Miðar verða seldir í safnbúð Gljúfrasteins og kosta 1.200 krónur fyrir fullorðna, 1.000 krónur fyrir eftirlaunafólk og námsfólk. Ókeypis fyrir öryrkja, atvinnulausa og fyrir börn yngri en 18 ára. 


 

Til baka í viðburði