Paradísarheimt 60/40 í Þjóðarbókhlöðu til 9.mars

Sýningin Paradísarheimt 60/40 var sett upp í fyrra í Þjóðarbókhlöðu í tilefni þess að þá voru liðin 60 ár frá útkomu bókarinnar Paradísarheimt eftir Halldór Laxness og 40 ár frá frumsýningu sjónvarpsmyndar sem gerð var eftir henni.

Úr kvikmyndinni Paradísarheimt

Á sýningunni eru gögn sem Björn G. Björnsson leikmyndateiknari hélt til haga meðan á gerð myndarinnar stóð og þar er einnig hægt að skoða handrit Halldórs Laxness að bókinni.  
Sýningin sem stendur til 9. mars næstkomandi er samstarfsverkefni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Gljúfrasteins. Þá styrkir Vinafélag Gljúfrasteins verkefnið.

Hér má skoða sýningarskrá en hönnuður hennar er Ólafur J. Engilbertsson.

Bókin Paradísarheimt kom út samtímis á Íslandi og í Svíþjóð árið 1960. Síðar sama ár var hún gefin út í Danmörku og Noregi og árið 1962 í Bretlandi og Bandaríkjunum.  Helstu persónur bókarinnar eiga sér sögulegar fyrirmyndir, til dæmis er kveikjan að sögunni ferðasaga Eiríks Ólafssonar á Brúnum sem hélt til Utah til að kynnast mormónum. Sagan segir frá Steinari Steinssyni, bónda í Steinahlíðum. Hann yfirgefur bú sitt og fjölskyldu til að lifa meðal mormóna í Utah, í leit að fyrirheitna landinu og hinum endanlega sannleika. Sögunni lýkur þar sem söguhetjan er komin til baka og stendur aftur hjá bæ sínum undir Hlíðum sem kominn er í eyði. Hann hefur glatað öllu og tekur til við að reisa við vallargarðinn í túninu heima.

Sjónvarpsmyndin Paradísarheimt var frumsýnd þann 6. desember árið 1980. Hún var framleidd af NDR-Hamburg í samvinnu við norrænu ríkissjónvörpin og SF Swiss. Leikstjórn og handrit voru í höndum Rolf Hädrich en aðstoðarleikstjóri var Sveinn Einarsson. Helstu leikarar eru Jón Laxdal, Fríða Gylfadóttir, Róbert Arnfinnsson, Helga Bachman, Arnheiður Jónsdóttir, Dietmar Schönherr, Gunnar Eyjólfsson, Helgi Skúlason, Anna Björns og María Guðmundsdóttir.

Til baka í viðburði