Laxness grípur okkur aftur og aftur

Í fimmta þætti hlaðvarpsseríunnar Með Laxness á heilanum er orðið hjá þeim manni sem þekkir sögu Halldórs Laxness betur en flestir en hann skrifaði ævisögu skáldsins sem kom út árið 2004. Þetta er Halldór Guðmundsson, rithöfundur.  

Halldór Guðmundsson og Jagúar skáldsins
Ljósmynd: Dagur Gunnarsson 

Halldór Guðmundsson talar meðal annars um það í þættinum hvernig Halldór Laxness grípur okkur alltaf aftur og aftur, nær í skottið á okkur af einhverju tilefni ,,þú ert alltaf að rekast á eitthvað einkennilegt í þjóðlífinu og þá hefur hann skrifað einhversstaðar eitthvað um það." segir Halldór Guðmundsson. Hann segir að Halldór Laxness hafi fært í orð hvernig við hugsum um 20. öldina þannig að þegar við fjöllum um íslenska menningu á 20. öld verði hann alltaf á vegi okkar hvort sem við erum sammála honum eða ekki. ,,Hann kemur orðum að átökum tímans og það hefur enginn gert betur" og það hafi hann gert frá og með bókinni Vefarinn mikli frá Kasmír sem kom út árið 1927 þegar Halldór Laxness var 25 ára gamall.

,,Nú er ég að semja stóra og merkilega bók fyrir allan heiminn" skrifaði Halldór Laxness Jóni Sveinssyni árið 1925 um Vefarann mikla. Sú bók er Halldóri Guðmundssyni afar hugleikin. Hann segir að það hafi verið mikill slagur í Halldóri á meðan hann skrifaði bókina enda sé hún uppgjör hans við kaþólska trú ,,ég held að við það að skrifa bókina mótist endanlega í honum sú ákvörðun að verða rithöfundur hvað sem tautar og raular. Hann ætlar að skrifa fyrir heiminn." segir Halldór Guðmundsson sem í þættinum lýsir líka slæmri stöðu Halldórs Laxness meðan hann er að skrifa Vefarann sérstaklega meðan hann dvelur á Sikiley en þar sveltur hann beinlínis og fær ofskynjanir.

Tjáningarþorsti hans er óslökkvandi og Halldór segir að þegar hann var að skrifa ævisöguna löngu seinna hafi hann stöðugt verið að reyna að svara þessari spurningu: ,,af hverju stafar þessi ótrúlega skrifþörf sem Þórbergur [Þórðarson] kallaði skrifsýki, ... hann getur ekki stoppað þetta með neinum hætti", segir Halldór Guðmundsson.  Ævisagan sem hann ritaði er um 800 blaðsíður og hann skrifaði hana á sex mánuðum ,,ég held að þetta sé eina tímabilið á ævi minni þar sem ég bragðaði ekki brennivín og sat frá morgni til kvölds og án nokkurs frekari samanburðar get ég alveg ímyndað mér að Halldór hafi skrifað Vefarann í svona rússi, ekkert annað komst að." 

Halldór segir einnig frá þáttum sem hann og Þorgeir Gunnarsson gerðu um Halldór Laxness. Að baki þeim lá gríðarleg heimildarvinna og langur tími fór í að skrifa handrit og klippa þættina saman sem voru þegar yfir lauk þrír talsins hver rúm klukkustund að lengd.  ,,Svo varð ég næstum því aðeins hjátrúafullur því að ég man að föstudaginn 6. febrúar 1998 klárum við þetta ... og tveimur dögum síðar, á afmælinu mínu reyndar, deyr Halldór. Það þýddi að í vikunni þar á eftir þá er RÚV bara með þrjá klukkutíma um Halldór eins og þetta væri BBC, allt tilbúið og frágengið" segir Halldór Guðmundsson í fimmta þætti hlaðvarpsins Með Laxness á heilanum

Í þáttunum er rætt við fólk sem er hugfangið af verkum Halldórs Laxness og hugmyndum hans um líf og tilveru.
Umsjónarkona er Margrét Marteinsdóttir. 
Upphafs- og lokalag þáttanna gerði Sigrún Jónsdóttir, tónskáld en það er tilbrigði við lag sem Halldór Laxness söng við ljóð sitt Maístjörnuna í viðtali við Pétur Pétursson, þul á Gljúfrasteini árið 1987.

Hægt er að nálgast þættina á Spotify.

Til baka í viðburði