Brekkukotsannáll er galdrabók

Í fjórða þætti hlaðvarpsseríunnar Með Laxness á heilanum talar Ólafur Stefánsson fyrrverandi handboltamaður um ást sína á bókinni Brekkukotsannáll eftir Halldór Laxness. Bókin kom út árið 1957, tveimur árum eftir að Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Ólafur er hugfanginn af lífinu í Brekkukoti, af ömmu og afa Álfgríms sem hann segir að séu tímalaus. Hjá þeim sé að finna mýkt og hreinan tón ,,það er ofboðslega hollt að alast upp með tímalausu fólki" segir Ólafur sem sjálfur ólst að miklu leyti upp hjá ömmu sinni og afa. Ólafur segir að áskorun fullorðinna sé að leyfa hverju og einu barni, hverjum og einum litla Laxness að gera það sem hann vill því þá verði til töfrar ,,Laxness hefði ekki komist langt án galdranna, án töfrasprotans," segir Ólafur Stefánsson.   

Ólafur Stefánsson í vinnuherbergi Halldórs Laxness

Brekkukotsannáll hefst á þessum orðum: ,,Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en að missa föður sinn."  Ólafur heimfærir þessi orð upp á menntakerfið. Þarna sé Halldór að segja að börn séu mikilvægari foreldrum en foreldrar börnum og að það eigi líka við um menntakerfið ,,börn eru mikilvægari menntakerfinu en menntakerfið börnum" segir Ólafur. Hann segist enn hugsa um það þegar hann var látinn lesa Íslandsklukkuna í menntaskóla ,,ég held að Halldór hafi ekki verið glaður þegar ég var að lesa Íslandsklukkuna því að ég skildi ekkert í henni og tengdi ekki við neitt" segir Ólafur sem óskar þess að öll börn langi einhvern tíma að lesa Brekkukotsannál og svo aftur og svo aftur og aftur og á meðan á lestri stendur langi þau til að krota í bókina ,,því það er tálsýn menntakerfisins að halda að bók geti komið til galdramannsins þegar hann er ekki tilbúinn"  Ólafur talar í þættinum um ömmur og afa, hinn hreina tón sem hann er búinn að heyra, eilífðina, töfrasprotann, um krókódíl sem gleypir sólina, sönginn og sáttina. Líka um eilífðina, kyrrðina og söng lóunnar ,,ef þú þegir í eitt augnablik og leyfir lóunni að sjá um þetta, þá ertu kominn heim, þá er einskis að leita af því að það er ekkert týnt," segir Ólafur Stefánsson í fjórða þætti hlaðvarpsseríunnar Með Laxness á heilanum. 

Í þáttunum er rætt við fólk sem er hugfangið af verkum Halldórs Laxness og hugmyndum hans um líf og tilveru. Umsjónarkona er Margrét Marteinsdóttir.  Upphafs- og lokalag þáttanna gerði Sigrún Jónsdóttir, tónskáld en það er tilbrigði við lag sem Halldór Laxness söng við ljóð sitt Maístjörnuna í viðtalið við Pétur Pétursson, þul á Gljúfrasteini árið 1987.

Hægt er að nálgast þættina á Spotify,.  

Til baka í viðburði