Í túninu heima er fyrsta minningaskáldsaga Halldórs Laxness af fjórum en þær komu út á árunum 1975-80.Hinar eru Úngur eg var (1976), Sjömeistarasagan (1978) og Grikklandsárið (1980). Bálknum lýkur þegar hann stendur á tvítugu. Í túninu heima fjallar um fyrstu tólf árin í lífi Halldórs. Hann lýsir atburðum og aðstæðum sem leiða til þess að hann tekur þá ákvörðun að verða rithöfundur - eða öllu heldur hvernig örlögin réðu því hlutskipti hans. Hann horfir á bernskuna sem fullorðinn rithöfundur og í sögunni er enginn atburður eða staður svo lítilsverður að hann sé ekki frásagnarverður.
