Hús skáldsins frá ýmsum hliðum: Híbýlamenning Laxnesshjónanna

26/06 2023

Gljúfrasteinn 1951

Árið 1992 kom út þemablað af tímaritinu Arkitektúr og skipulag þar sem sjónum var beint að híbýlamenningu Halldórs og Auðar Laxness. Umsjónarmenn þemablaðsins voru þrír og skiptu þeir með sér verkum eftir fagsviðum sínum. Trausti Valsson skipulagsfræðingur ritaði greinina „Í túninu heima“ og fjallaði þar um Laxnesshjónin sem frumkvöðla að því búsetumynstri að eiga aðalbústað í sveitinni og íbúð í borginni.* Greinin „Gljúfrasteinn“ eftir Pétur H. Ármannsson arkitektúrsagnfræðing fjallar um arkitektúr hússins og tildrögin að byggingu þess, og efni greinarinnar „Innanstokks“ eftir Kjartan Jónsson innanhússarkitekt er innbú og innri arkitektúr á Gljúfrasteini.** 

Höfundarnir hófu verkið á því að falast eftir og fá leyfi Auðar Laxness, sem bauð þeim einnig til sín á Gljúfrastein til frekari undirbúnings. Hefur Trausti Valsson lýst þessum fundum á Gljúfrasteini sem helgistundum. 

Áhugasöm geta nálgast allar þrjár greinarnar á heimasíðu Trausta Valssonar undir eftirfarandi slóð: https://tv.hi.is/wp-content/uploads/2023/05/Halldor-Laxness-Heimili.pdf 

 

*Trausti skrifaði um þetta sama mynstur í doktorsverkefni sínu, sem er aðgengilegt hér: https://tv.hi.is/wp-content/uploads/2023/05/Borg-og-Nattura.pdf 

** Rétt er að geta þess að höfundarnir hafa sjálfir vakið athygli á villu sem slæddist inn í myndatexta á síðu 17 í blaðinu, en svefnherbergishúsgögn Auðar voru ekki hönnuð af Birtu Fróðadóttur heldur Josef Frank, austurrískum arkitekt og hönnuði sem starfaði í Svíþjóð.