Tónleikasumri lokið

Flygillinn í stofunni á Gljúfrasteini er frá Steinway and Sons og var keyptur árið 1967.

Nú er sjötta stofutónleikaröðin á Gljúfrasteini á enda. Fyrstu tónleikarnir voru 6. júní þegar Spilmenn Rikinis tóku lagið og Þóra Passauer óperusöngkona ásamt Birnu Hallgrímsdóttur og Ásdísi Hildi Runólfsdóttur lokuðu sumrinu með ljúfum tónum Brahms.


Frá sumrinu 2006 hafa stofutónleikar verið fastur liður á Gljúfrasteini og þekktir sem óþekktir tónlistarmenn stigið á stokk við góðar undirtektir tónleikagesta. Anna Guðný Guðmundsdóttir tónlistarráðunautur Gljúfrasteins hafði að vanda umsjón með tónleikunum, en þeir voru þrettán í ár. Dagskráin í sumar var mjög fjölbreytt og spannaði allt frá þjóðlegri tónlist til klassískrar tónlistar. Góð aðsókn hefur verið á stofutónleikana frá upphafi enda einstakt að hlýða á ljúfa tóna í stofu skáldsins.

Vinafélag Gljúfrasteins studdi stofutónleikana með fjárframlagi og menningarmálanefnd Mosfellsbæjar stóð fyrir einum tónleikum. Skoða má tónleikasumarið 2011 hér.