Sögueyjan Ísland - Sagenhaftes Island

Jón Kalman Stefánsson les upp á Gljúfrasteini í ágúst 2005

"Ég er bara smali" segir Jón Kalman rithöfundur í skemmtilegu viðtali á vef Sögueyjunnar Íslands. En eins og flestir vita verður Ísland heiðursgestur bókasýningarinnar í Frankfurt árið 2011. Bókasýningin í Frankfurt er  stærsta bókasýning og kaupstefna í heimi og sú langþekktasta.

Á sýningunni gefst heiðursgestinum einstakt tækifæri til að kynna sögu sína og sjálfsmynd, menningu og bókmenntir fyrir árvökulum augum umheimsins. Um leið blasir við fullkomlega einstæður möguleiki til að kynna íslenska bókmenningu,  kjölfestuna í íslenskri menningu enda eru þýskir fjölmiðlar, rétt eins og almenningur þar, afar velviljaður íslenskri menningu.

Bækur Halldórs Laxness hafa í miklum mæli verið gefnar út á þýsku og notið töluverðra vinsælda í Þýskalandi. Bækur Halldórs hafa verið gefnar út á meira en 40 tungumálum, lista yfir þýðingar skáldsins er hægt að nálgast á  heimasíðu Gljúfrasteins.
Sögueyjan Ísland er með heimasíðu þar sem mikinn fróðleik er að finna um íslenskar bókmenntir og listir.