Skýrsla um lopapeysuna kynnt

28/04 2015

Forsíða skýrslu Ásdísar Jóelsdóttur um uppruna, þróun og hönnun íslensku lopapeysunnar.

Ásdís Jóelsdóttir lektor kynnir helstu niðurstöður rannsóknar sinnar um uppruna íslensku lopapeysunnar í húsakynnum Hönnunarsafns Íslands við Garðatorg 1 í Garðabæ fimmtudaginn 30. apríl  kl. 17:00

Haustið 2014 hófst rannsókn á uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar en verkefnið var samstarfsverkefni þriggja safna; Gljúfrasteins – húss skáldsins, Hönnunarsafns Íslands og Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi. Uppruni, hönnun og þróun lopapeysunnar er mikilvægur hluti af textílsögu þjóðarinnar en hún er einnig hluti af sögu íslenskra karla og kvenna sem með hugverki sínu lögðu grunn að einni mikilvægustu útflutningsvöru Íslendinga fyrr og síðar. Lopapeysan er þannig mikilvægur hluti af tæknibyltingu og útflutnings- og hönnunarsögu þjóðarinnar og hefur því ekki að ástæðulausu orðið stór þáttur í þjóðarímynd um Íslendinga.

Í skýrslu Ásdísar má finna upplýsingar um prjón og ullarvinnslu í sögulegu samhengi og þær aðstæður hérlendis sem rekja má upphaf lopapeysunnar til og þá þróun sem greina má allt frá upphafsárum Lýðveldisins. Rakin eru þau atriði sem gerðu lopapeysuna að séríslenskri frumhönnun sem þróuð var í samvinnu og með þátttöku margra einstaklinga og áhrifavalda þar sem samfélags- og tæknilegir þættir og framboð og eftirspurn skiptu sköpum.

Rannsóknin var unnin af Ásdísi Jóelsdóttur lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.