Salka Valka og Kristnihaldið í Bíó Paradís í kvöld

Halldór Laxness með nokkrum samstarfsmönnum og aðstandendum kvikmyndarinnar Sölku Völku. Í fangi skáldsins situr dóttir hans, Sigríður Halldórsdóttir

Í kvöld klukkan 20 verður kvikmyndin Salka Valka sýnd í Bíó Paradís. Kvikmyndin var sú fyrsta sem gerð var eftir verkum skáldsins og var frumsýnd á Íslandi árið 1954. „Salka Valka er óvenjulega góð kvikmynd. Í henni er ef til vill ýmislegt, sem kann að koma Íslendingi annarlega fyrir sjónir; en þess ber að gæta að hún er umfram allt sænsk kvikmynd og ég held ekki að sænsk kvikmyndalist hafi áður komizt hærra.“ Þannig tók Halldór Laxness til orða í viðtali sem Þjóðviljinn hafði úr danska blaðinu Land og folk, en rithöfundurinn dvaldi í Kaupmannahöfn þegar myndin var frumsýnd hér á landi. Langt er síðan Íslendingar hafa átt kost á að sjá myndina og er þetta því einstakt tækifæri að sjá hana eða rifja upp gömul kynni við Sölku Völku. Myndin er sænsk en var tekin upp að hluta til á Íslandi.

Klukkan 18 verður Kristnihald undir Jökli í Bíó Paradís. Myndinni leikstýrði Guðný Halldórsdóttir, dóttir Halldórs Laxness og má þar finna ógleymanlegar persónur eins og Umba og Hnallþóru. Myndin var frumsýnd í febrúar 1989.

Kvikmyndir eftir verkum Halldórs Laxness verða sýndar í Bíó Paradís alla vikuna. Hér má sjá heildardagskrána.

Hægt er að nálgast miða á midi.is eða í Bíó Paradís eftir klukkan 17.