Maxímús Músíkús og félagar á sunnudaginn klukkan 16

04/06 2013

Maxímús Músíkús og Hallfríður Ólafsdóttir

Maxímús Músíkús ætlar að koma með höfundi sínum, Hallfríði Ólafsdóttur að hitta börn á öllum aldri í stofunni á Gljúfrasteini á sunnudaginn klukkan 16. Þar munu þau fletta bókunum um Maxa, sýna myndir, lesa og leika tónlist. Einnig kemur leynigestur í heimsókn.

Hallfríður Ólafsdóttir er flautuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands en hefur einnig unnið verkefnið um músíkölsku músina, hann Maxa, síðastliðin átta ár. Fyrstu Maxatónleikarnir voru haldnir vorið 2008 og um leið kom út fyrsta bókin um hann  ásamt geisladiski. Nú eru komin út þrjú ævintýri um Maxímús Músíkús og fjórða bókin er í vinnslu.

Maxi á heima í Hörpu en bregður sér stundum af bæ og ætlar að koma í Mosfellsdalinn til þess að dansa við lagið sitt, Lagið hans Maxa, í stofu Nóbelsskáldsins, Halldórs Kiljans Laxness, og þykir það ekki lítill heiður!

Aðgangseyrir er 500 krónur fyrir börn og 1.000 krónur fyrir fullorðna.

Á heimasíðu Gljúfrasteins má nálgast dagskrá stofutónleikanna í sumar.