Dagur íslenskrar tungu á Gljúfrasteini

Kristín Helga Gunnarsdóttir og Kjartan Yngvi Björnsson, rithöfundar, ásamt Önnu Pálínu Sigurðardóttur og Amöndu Lind Davíðsdóttur úr Varmárskóla og Sólveigu Rósu Hugadóttur, Ástríði Magnúsdóttur og Rakeli Ösp Gylfadóttur úr Lágafellsskóla.

Degi íslenskrar tungu var fagnað á Gljúfrasteini laugardaginn 16. nóvember síðastliðinn með vel heppnuðum upplestri sem tileinkaður var börnum. Þá komu nemendur úr tveimur grunnskólum Mosfellsbæjar, Lágafellsskóla og Varmárskóla, og lásu upp bæði brot úr skáldsögum Halldórs Laxness og ljóð eftir aðra. Nemendurnir sem lásu voru Anna Pálína Sigurðardóttir og Amanda Lind Davíðsdóttir úr Varmárskóla og Sólveig Rósa Hugadóttir, Ástríður Magnúsdóttir og Rakel Ösp Gylfadóttir úr Lágafellsskóla. Einnig lásu tveir rithöfundar úr verkum sínum, Þau Kristín Helga Gunnarsdóttir og Kjartan Yngvi Björnsson.Kristín Helga las úr bók sinni Mói hrekkjusvín, sem verið er að endurútgefa um þessar mundir en Kjartan las úr nýrri bók sem hann skrifaði ásamt Snæbirni Brynjarssyni. Bókin ber nafni Draumsverð og er framhald af Hrafnsauga sem þeir félagar gáfu út fyrir jólin í fyrra og hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2012.

Á facebook-síðu Gljúfrasteins má sjá fleiri myndir frá upplestrinum.