Feilan og Steinar bóndi í Bíó Paradís í kvöld

Úr kvikmyndinni Paradísarheimt

Sjónvarpsmyndin Silfurtunglið ásamt stuttmyndinni Lilju verða sýndar í Bíó Paradís í dag klukkan 17:30. Auk þeirra verður sjónvarpsmyndin Paradísarheimt sýnd klukkan 21:00. Hrafn Gunnlaugsson færði Silfurtúnglið til nútímans í sjónvarpsverkinu. Rakin er saga Lóu, húsmóður með fallega söngrödd, sem hefur gaman að því að syngja fyrir nýfæddan son sinn. Lóa er „uppgötvuð“ af hinum vafasama Feilan sem er framkvæmdastjóri næturklúbbsins Silfurtunglsins og hann gerir hana að táknmynd þess hreina og upphaflega, ímynd sem hann getur selt því firrta fólki sem stundar næturklúbbinn. En í þessu umhverfi verður hæfileiki hennar ekki svipur hjá sjón og atriði hennar niðurlægjandi.
Einnig verður stuttmyndin Lilja sem frumsýnd var 11. febrúar 1978 í Háskólabíói sýnd með Silfurtunglinu. Hún var einnig í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar. Hann skrifaði handritið og færði söguna til nútímans. Sagan segir af nokkrum læknanemum sem ræna líki nýlátins fátæks manns sem hvorki á eignir né frændur. Þetta gera læknanemarnir í þágu vísindanna og setja grjót í líkkistuna.

Sjónvarpsmyndin Paradísarheimt var frumsýnd 6. desember 1980. Hún var framleidd af norður-þýska sjónvarpinu í samvinnu við norrænu ríkissjónvörpin og SF Swiss. Leikstjóri var Rolf Hädrich en Sveinn Einarsson var aðstoðarleikstjóri. Jón Laxdal lék Steinar bónda en í öðrum hlutverkum voru m.a. Fríða Gylfadóttir, Róbert Arnfinnsson, Helga Bachman, Arnheiður Jónsdóttir og Dietmar Schönherr.
Paradísarheimt kom út samtímis á Íslandi og í Svíþjóð árið 1960. Sagan segir frá Steinari Steinssyni bónda í Steinahlíðum. Hann hverfur frá búi sínu og fjölskyldu til að lifa meðal mormóna í Utah, þar sem hann telur sig hafa fundið fyrirheitna landið, hinn endanlega sannleika.

Kvikmyndir eftir verkum Halldórs Laxness verða sýndar í Bíó Paradís alla vikuna. Hér má sjá heildardagskrána.

Hægt er að nálgast miða á midi.is eða í Bíó Paradís eftir klukkan 17.