Vilt þú vera vinur Gljúfrasteins?

Laxness situr í stólnum Eggið eftir Arne Jacobsen í stofu sinni að Fálkagötu 17.

Stjórn Gljúfrasteins hyggst stofna Vinafélag Gljúfrasteins á fæðingardegi skáldsins þann 23. apríl 2010. Tilgangur félagsins er að veita Gljúfrasteini stuðning og aðstoð og að efla vitund um arf Halldórs Laxness og mikilvægi hans.

Vinafélagið verður opið öllum þeim sem áhuga hafa á skáldinu og starfseminni á Gljúfrasteini.

Ef þú hefur áhuga á að gerast vinur Gljúfrasteins sendu okkur þá línu á netfangið gljufrasteinn [hjá] gljufrasteinn.is.

Þess má geta að sama dag mun Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenda Íslensku þýðingaverðlaunin á Gljúfrasteini. 

Safnið er opið allt árið og stendur fyrir margvíslegum viðburðum. Næstkomandi sunnudag, 25. apríl klukkan 16, spjallar Hrafnhildur Hagalín um epík og dramatík og um glímuna við að snara skáldsögu yfir í leikverk. En Hrafnhildur gerði einmitt leikgerðina að Sölku Völku árið 2005.