Opið á Gljúfrasteini á morgun

Efsti hluti klukkunnar frægu frá Brekku á Álftanesi sem sagði „ei-líbbð ei-líbbð“ í Brekkukotsannál. Árið 1916 skrifaði Halldór Laxness grein um klukkuna í Morgunblaðið og kemur þar fram að hún hafi komið til landsins „á öndverðum síðasta fjórðungi 18. aldar“. Hún gengur enn og slær með björtum fögrum hljóm. Með stiganum upp á efri hæðina hanga tvö málverk eftir Svavar Guðnason og eitt eftir norska málarann Weiderman. Myndina yfir dyrunum inn í eldhúsið segir Auður Halldór hafa „keypt í útlöndum“.

Opið á Gljúfrasteini á morgun 17. maí, uppstigningardag.

Það fyrsta sem blasir við gestum á Gljúfrasteini er klukka. Hún hefur lengi verið í eigu fjölskyldu Halldórs og var á heimili ömmu hans og afa þegar Halldór var ungur drengur. Halldóri var klukkan hugleikin og skrifaði árið 1916, þá 14 ára gamall, grein um klukkuna í Morgunblaðið. Í bókinni Brekkukotsannál sem kom út 1957 skrifar skáldið meðal annars eftirfarandi: Þessi klukka tifaði hægt og virðulega , og mér bauð snemma í grun að ekki væri mark takandi á öðrum klukkum. Úr manna virtust mér einsog ómálga börn í samanburði við þessa klukku. Sekúndurnar í annarra manna klukkum voru einsog óðfara pöddur í kapphlaupi við sjálfar sig, en sekúndurnar í sigurverkinu hjá afa mínum og ömmu, þær voru einsog kýr, og fóru ævinlega eins hægt og unt er að gánga án þess að standa þó kyr.