Tónlistin í stofu Jane Austen

Þórunn, Daði og Lilja

Það voru þau Daði Sverrisson, Lilja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Elín Pétursdóttir sem komu fram á síðustu stofutónleikum sumarsins og fluttu tónlist úr stofu 19. aldar skáldinu Jane Austen.

Flutt voru einsöngslög, aríur og dúettar frá 17., 18. og fyrsta tug 19. aldar. Jane Austen spilaði sjálf á píanó og hafði unun af söng. Tónlist kemur því víða við sögu í verkum hennar og var oftar en ekki flutt heima við. Jane Austen nýtti sér tónlist til að skýra og skerpa söguhetjur sínar og draga fram mismunandi andrúmsloft í sögum sínum. Tónlistaratriðin verða öll tengd verkum, söguhetjum og lífi Jane Austen á einhvern hátt.

Hafa verður í huga að aðgengi að afþreyingu og dægradvöl á tímum Austen var fremur lítið og fábreytt. Tónlist var aðeins hægt að upplifa í lifandi flutningi og þá varð að reiða sig á kunnáttu heimafólks, fjölskyldu, vina og nágranna. Fólk kom saman í stofum hvers annars og skemmti hvert öðru með söng, hljóðfæraspili og dansi. Markmiðið með tónleikunum á Gljúfrasteini er að leyfa áhorfendum að skyggnast inn í sögur Austen með upplestri, spjalli og síðast en ekki síst tónlist og upplifa þannig hina notalegu stemningu sem myndaðist við tónlistarflutning heima í stofu.

Daði Sverrisson, píanóleikari

Lilja Dögg Gunnarsdóttir, messósópran

Þórunn Elín Pétursdóttir, sópran

Um flytjendurna:

Daði Sverrisson

Daði Sverrisson stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Jónasar Ingimundarsonar og Halldórs Haraldssonar og lauk einleikaraprófi árið 2000 þar sem hann lék píanókonsert nr. 1 eftir Prokofiev með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Frá útskrift hefur Daði starfað sem einleikari og meðleikari með söngvurum og flytjendum og hefur m.a. leikið á tónleikum um nær allt land á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla þar sem flutt var tónlist eftir Poulenc við Ævintýrið um fílinn Babar og rómantíska tónlist við Ævintýramanninn eftir Charlie Chaplin. Undanfarin ár hefur Daði verið píanisti hjá kórum Áskirkju og Hljómeykis undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar og átt þátt í undirbúningi á flutningi Porgy og Bess eftir Gershwin með Sinfóníuhljómsveit Íslands 2010, Messíasi eftir Händel 2011, 9. Sinfóníu Beethovens við opnunartónleika Hörpunnar í maí 2011. Meðal nýlegra verkefna var flutningur á söngperlum Grieg, Schuman og Hreiðars Inga Þorsteinssonar á sumartónleikum Stykkishólmskirkju 2011 sungið af Lilju Dögg Gunnarsdóttur og Hreiðari Inga Þorsteinssyni, flutningur á Porgy og Bess í Norðurljósum haustið 2011 með Fílharmóníunni undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar, undirbúningur á íslensku óperunni Lísu í Undralandi eftir John Speight, æfingar á 9. Sinfóníu Beethovens með Mótettukór Hallgrímskirkju í maí 2012, og Messíasi eftir Händel með Kór Áskirkju og Sinfóníuhljómsveit Íslands í desember 2012.

 

Þórunn Elín Pétursdóttir

B.Mus. gráða í einsöng frá Listaháskóli Íslands, tónlistardeild 2001-2004.

Aðalkennari var Elísabet Erlingsdóttir, meðleikarar Anna Guðný Guðmundsdóttir og Richard Simm. Miðár námstímans stundaði ég við Universität der Künste í Berlín undir handleiðslu Ute Niss.

Þórunn hefur sótt fjölmörg meistaranámskeið í söng, m.a. hjá Joy Mammen, Franco Castellana, Karan Armstrong, Mark Wildman, Meashu Brueggergosman, Märtu Schéle, Galinu Pisarenko og Giovanna Canetti. Hún hefur tekið þátt í óperunámskeiði hjá Mörthu Sharp og Margaret Singer og Ljóðaakademíu Kristins Sigmundssonar og Jónasar Ingimundarsonar í Salnum.

Lilja Dögg Gunnarsdóttir

Mezzó-sópran, lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 2010 undir handleiðslu Elísabetar F.Eiríksdóttur, söngkennara og Elínar Guðmundsdóttur, píanó og semballeikara. Hún hefur verið virkur þátttakandi í ýmsum masterklössum t.d. hjá Prof. Martha Sharp, Elisabeth Meyer-Topso og Kristjáni Jóhannssyni.Í dag sækur hún tíma til Elsu Waage. Hún hefur komið fram sem einsöngvari í ýmsum verkum (sjá neðar). Lilja Dögg starfar sem söngkona, kórstýra og kennari.

Verkefni Lilju í söng:

2012 – Sumartónleikar í Skálholti, barokk.

2012 – Siete Canciones í Þjóðmenningarhúsinu á Menningarnótt

2012 – Altsólóisti í Stabat Mater e. Pergoles. Flytjendur: Ineagal kvartettinn, undirrituð, Þórunnar Elínar Pétursdóttir og kór Kópavogskirkju.

2012 – Einsöngur fyrir mezzósópran í Hringadróttinssinfóníu SÍ í Eldborg.

2011 – Sumartónleikar Stykkishólmskirkju. Norræn sönglög og verk Hreiðars Inga Þorsteinssonar.

2010 – Páskar, Langholtskirkja, einsöngur í Jóhannesarpassíu Bachs (kór og kammersveit)

2009 – Náttsöngvar Rachmaninoffs, einsöngur.