Þjóðlagaspuni á Gljúfrasteini

Mógil. Hljómsveitarmeðlimir eru Heiða Árnadóttir sem syngur, Hilmar Jensson á rafgítar, Joachim Badenhorst á klarinett og Kristín Þóra Haraldsdóttir á víolu.

Hljómsveitin Mógil kom fram á stofutónleikum á Gljúfrasteini sunnudaginn 3. júlí. Tónlist sveitarinnar má kalla þjóðlagaspunadjass og eru lögin eftir hljómsveitarmeðlimi. Allir textar sveitarinnar eru íslenskir og hafa skírskotun til íslenskrar náttúru og þjóðsagna.

Hljómleikarnir voru hluti af tónleikaferðalagi Mógils sem kynnti diskinn sinn Í stillunni hljómar. Diskurinn var gefinn út í Belgíu og Hollandi í mars og hefur fengið mjög góða dóma þar. Hljómsveitarmeðlimir eru Heiða Árnadóttir sem syngur, Hilmar Jensson á rafgítar, Joachim Badenhorst á klarinett og Kristín Þóra Haraldsdóttir á víolu. Mógil hefur starfað í 5 ár og farið í tónleikaferðir um Ísland, Belgíu, Kaupmannahöfn, Lúxemburg og Holland. Hún hefur spilað á ýmsum tónlistarhátíðum, m.a. á Djasshátíð Reykjavíkur, Iceland Airwaves, Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði og á WOMEX heimstónlistarhátiðinni. Árið 2007 gaf Mógil út geisladiskinn sem fékk frábæra dóma hér á landi og í blöðum erlendis. var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna og valin 3. besta plata ársins 2008 af gagnrýnanda Morgunblaðsins.

Ragnheiður (Heiða) Árnadóttir er klassísk menntuð söngkona og er með meistaragráðu frá Tónlistarháskólanum í Haag í Hollandi. Heiða syngur með ýmsum hópum, m.a. með nútímahópnum Adapter og kammerkórnum Schola Cantorum.

Hilmar Jensson, gítarleikari hljómsveitarinnar, er einn þekktasti gítarleikari Íslendinga og hefur spilað út um allan heim. Hilmar hefur spilað inná fjölda platna og með helstu jazztónlistarmönnum í heimi. Hann spilar í tríóinu sínu TYFT og líka með AlasNoAxis, Outhouse, BMX og fleirum.

Joachim Badenhorst útskrifaðist með meistaragráðu í saxafón og klarinettuleik frá Tónlistarháskólanum í Haag í Hollandi. Hann er búsettur í New York og spilar með fremstu spuna- og djasstónlistarmönnum þar í borg. Joachim leikur meðal annars í Han Bennink Trio, Ravfishboys og Os Meus Shorts.

Kristín Þóra Haraldsdóttir er nýútskrifuð úr California Institute of the Arts þar sem hún stundaði meistaranám við performer/composer deild skólans. Hún nam áður víóluleik og tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og hefur komið fram með ýmsum hljómsveitum og listamönnum á Íslandi, sem og erlendis, m.a. með spunatríóinu Dark Fare, tilraunatónlistarhópunum Audio Destructinators í Los Angeles og S.L.Á.T.U.R. á Íslandi.