Skeggræður 3. hluti

IV. Að setja sig í stellingar

Matthías: Mér er sagt að þú hafir hripað niður orð og orðatiltæki hvar sem þú hefur komið, og notað síðar. Stundum jafnvel sótt söguþráðinn í munnmæli eða frásagnir sem þú hefur heyrt. Að hve miklu leyti vinnurðu sögur þínar með þessum hætti?

Halldór: Ég hef oft lagt eyru við orðum og orðatiltækjum, sem mér voru ekki kunn, og fest mér þau í minni. Sum hef ég síðan notað þegar mér hefur fundizt við eiga. En ég hef ekki gert mikið að því að skrifa upp orð sem ég hef heyrt. Þegar ég hef ekki verið alveg viss um að ég myndi rétt á skrifandi stund, hef ég flett upp í orðabókum. Og hafi ég ekki fundið orðin þar, hef ég kvatt til menn, sem ég hef haldið að könnuðust við þau. Ef þeir hafa ekki getað hjálpað mér, hef ég látið orðið eða orðatiltækið flakka eins og ég mundi það. Við eftirgrennslan fræðimanna hefur sjaldan reynzt að ég hafi munað skakkt.

Matthías: Þú hefur einhvern tíma sagt að fólk úti á landsbyggðinni tali, þrátt fyrir allt, ekki betra mál en við sem erum uppalin í Reykjavík.

Halldór: Það gerir það sjálfsagt ekki heldur. Ég veit eiginlega ekki hvaðan þessi hugmynd um að tala gott eða vont mál er komin – líklega upphaflega úr kennaraskólanum. Að minnsta kosti höfðu allir barnakennarar mínir strangar kenningar um rétt og rangt mál. Mál sem talað er hér í Reykjavík og er frábrugðið sveitamáli er oft mjög skemmtilegt og sjálfsagt að nota það í bókum þar sem það á við, mér er sama þó það sé kallað slang og skrílmál. Ég hef oft af „listrænum ástæðum“ tekið orðskrípi af götunni upp í texta mína, engu síður en rammíslenzkar glósur eftir almenningi í strjálbýlinu.

Matthías: Þegar ég las Brekkukotsannál, fannst mér hann væri ekki skáldsaga, heldur sérstök tegund ævisögu. Reyndirðu nokkuð að setja þig í ævisögustellingar, þegar þú skrifaðir söguna?

Halldór: Já, það eru þannig stellingar í bókinni. Maður verður að setja sig í sérstakar stellingar við hverja bók, eins og leikari verður að vera nýr maður í hverju hlutverki.

Matthías: Var Bjartur mótmæli gegn Hamsun?

Halldór: Bjartur er að vissu leyti skrifaður sem mótmæli gegn sveitarómantíkinni, sem mér hefur alltaf fundizt leiðinleg nema hjá Jónasi og Steingrími sem sækja hana til Grikkja. En það er varla hægt að kalla sveitarómantíkina lífsstefnu og því síður þjóðfélagsstefnu. Þegar ég sem ungur maður í Kaupmannahöfn las Gróður jarðar eftir Knut Hamsun, nýútkomna, fannst mér spurning verksins röng og þar af leiðandi svarið, þó sagan sé sjálf þar fyrir utan merkileg og að mörgu leyti ágætt verk eins og ég hef áður minnzt á við þig.

 

V. Hefð og heiðurstitlar

Matthías: Nú langar mig að spyrja þig um Únglínginn í skóginum.

Halldór: Þegar ég orti Únglínginn í skóginum hér heima veturinn 1924–’25 var ég mjög hrifinn af þeirri formbreytingu, sem expressionistar og súrrealistar stóðu að. Mig langaði mikið til að yrkja íslenzkt kvæði sem hafnaði öllum þeim formúlum sem okkur hérna höfðu verið kenndar. Ég var að reyna að setja saman kvæði, mátulega stórt, sem átti að brjóta í bág við íslenzka hefð, án þess að vera leirburður eða þrugl. Hversu erfitt þetta reyndist fyrir 40 árum má sjá af því að ég var marga mánuði að yrkja ljóðið. Þegar við lítum nú á þetta ljóð og höfum í huga þróunina sem síðan hefur orðið í skáldskap, virðist mitt kvæði heldur lítilfjörlegt; og einskisvirði ef það er borið saman við Söknuð eftir Jóhann Jónsson.

Matthías: En dýrt! Það hafði af þér skáldalaun.

Halldór: Skáldalaun, æ – já. verðlaun hafa aldrei haft nein áhrif á mig, því síður að þau hafi breytt lífsstefnu minni. Ég lít á verðlaun sem gullhamra. Peninga étur maður upp á skömmum tíma. Þetta á einnig við um Nóbelsverðlaunin. Þegar ég fékk þau, var ég í miðjum Brekkukotsannál, vann áfram að bókinni hálfan mánuð í Stokkhólmi eftir hátíðahöldin, en fór svo til Rómaborgar og hélt þar verkinu áfram. Þegar ég fékk Sonningverðlaunin frá Kaupmannahafnarháskóla, þótti mér hnýsilegast að horfa upp á íslenzka stúdenta ganga um götur Kaupmannahafnar og halda uppi spjöldum með mótmælum gegn Laxness á dönsku. En það gerist margt á langri leið, segir máltækið. Í einn tíma var ég gerður heiðursfélagi íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn, næsta skipti ganga þeir sömu Íslendingar um stræti þessarar útlendu borgar með kröfuspjöld gegn heiðursfélaga sínum, og það á dönsku. Þetta sýnir að maður ætti að taka heiðursútnefningar með salti! Ég tók andmælunum gegn Únglíngnum í skóginum ekki heldur mjög hátíðlega á sínum tíma.

Matthías: Þú notaðir fyrstur manna orðið atómskáld. Síðan hafa ýmsir notað það sem skammaryrði um ung skáld.

Halldór: Það var ekki skammaryrði af minni hálfu. Þetta orð lenti í Atómstöðinni. Þar voru tvö skáld eða spekingar, dulrænir menn og sjáendur sem reyndar voru einhvers konar „smáglæponar“, og ortu skrítin kvæði. Ég kallaði þá atómskáld. Þetta var í rauninni nokkurs konar heiðurstitill, aðrir titlar lágu ekki á lausu. Og þó einhverjir aumingjar hafi síðar tekið orð þetta upp sem skammaryrði um heiðarlega menn, gildir það mig einu.

Matthías: Er ekki nauðsynlegt að brjóta hefðina til að skapa eitthvað nýtt?

Halldór: Það er sjálfsagt og nauðsynlegt að brjóta hefð hvenær sem þess gerist þörf. Þegar gömul hefð hefur gengið sér til húðar, er ekkert sjálfsagðara en brjóta hana. Það hefur oft verið gert. Eitthvert mesta brot á hefð í íslenzkum skáldskap voru nýjungar Jónasar Hallgrímssonar og þeirra sem komu á eftir honum. En Jónas yrkir alltaf í föstu, skipulögðu formi. Hann hafði þess konar menntun. Þó hann kynni skálda bezt að yrkja fornyrðislag, yrkir hann einnig undir þýzkum, ítölskum, frönskum og enskum bragarháttum, sem höfðu aldrei heyrzt á Íslandi fyrr. Hann þýðir meira að segja Stóð ég út í tunglsljósi undir lagi við alþekkt enskt drykkjukvæði.

 

VI. Kórvilla

Matthías: Hvernig lízt þér á framtíð Íslands, Halldór?

Halldór: Ég hef aldrei verið bölsýnismaður. Það mun hafa oltið einhvern tíma upp úr mér, því miður þó, held ég, á dönsku, að bölsýnin sé húmor lukkulega mannsins. En það er a.m.k. sá húmor sem ég ekki skil.

Matthías: Ertu hræddur um að við glötum tungu okkar í þessari hringiðu nútímans og nábýlinu við aðrar þjóðir?

Halldór: Svo gæti farið. Þess eru mörg dæmi að smáþjóðir hafi glatað tungu sinni, til dæmis Norðmenn. Mjög sterk tilhneiging er í þá átt á okkar dögum víða um heim.

Matthías: En íslenzka þjóðin hefur sterka arfleifð og miklar bókmenntir að styðjast við. Getur það ekki verið okkur styrkur?

Halldór: Jú, ef menn hafa ánægju af að lesa gullaldarbókmenntir, annars ekki.

Matthías: Sumir halda því fram að smásagan þín, Kórvilla, sé viðvörun; að þú viljir með henni benda á að flest sé okkur öndvert nú á dögum, allt streymi upp í móti á Íslandi.

Halldór: Það eru að vísu til táknræn eða allegórísk skáld. Þau eru sjaldan góð. En það eru líka til margir táknrænir lesarar, ef svo mætti segja og engin takmörk fyrir því hvað þeir geta lesið út úr skrifuðum texta. Stundum tekur þetta svo út yfir allan þjófabálk, að það er ekki einu sinni hægt að brosa að vizkunni. Ég minnist þess að hafa einhvern tíma lesið í ritdómi um leikrit eftir mig, Strompleikinn, að kerlingin sem múruð var inn í strompinn væri tákn Keflavíkurflugvallar. Sama máli gegnir um Kórvillu á Vestfjörðum, það á að vera „þjóðfélagsástandið“ á Íslandi. Sagan fjallar einfaldlega um roskna konu sem villist af bæjarhlaðinu heima hjá sér og ráfar yfir í annað byggðarlag, yfir fjall. Annað felst ekki í sögunni; þjóðfélagsástand á Íslandi er allt annað mál. Margir virðast ekki geta haft ánægju af að lesa sérkennilega sögu, til að mynda af konu sem villist af hlaðinu heima hjá sér, nema tengja hana við einhverja þráhyggju sjálfs sín. Menn krefjast þess að lítil saga sé einhvers konar opinberunarbók um óskyld mál. Þegar ég les sögu, gef ég einungis gætur að því sem stendur í bókinni. Margir ritdómarar sjá aðeins það sem stendur ekki í bókinni. Svo verða þeir illir yfir einhverju sem stendur ekki í bókinni og sjá ekki það sem stendur þar, – kannski stendur þar í rauninni ekki neitt, en það er annað mál. Það er leiðinlegt þegar menn sjá einungis það sem ekki stendur í bókinni.

Matthías: Þegar þú varst ungur sagðirðu að heimurinn væri djöfullega unaðslegur. Ertu enn sömu skoðunar?

Halldór: Sagði ég það? Ég man nú ekki öll þau gæluorð um heiminn sem ég hef látið flakka sínu sinni hvað. En ég tek ekkert aftur, læt allt standa sem ég hef sagt: því alltaf þegar manni bætist ný þekking hlýtur maður að breyta skoðun sinni. Annað væri ærulaust athæfi. Sumum bætist aldrei ný þekking af því þeir eru of óheiðarlegir til að taka nýja þekkingu gilda. Mínar skoðanir hafa alltaf verið í endurskoðun. Alltaf hafa heldur það sem sannara reynist, er siðferðilegt frumboðorð Íslendinga, þó ég viti enga þjóð sem á erfiðara með að fara eftir þessu boðorði. Hér eru menn lofaðir á börunum fyrir það að hafa ævilangt haldið fast við einhverjar „skoðanir“ sem þem voru innrættar í æsku, og viku síðan aldrei fyrir því sem sannara reyndist. En þær hugmyndir sem ég hef haft eru og verða partur af sjálfum mér eins fyrir því, þó fyrri skoðanakerfi hafi að einhverju leyti eða í heilu lagi verið gerð upp sem gjaldþrota andspænis staðreyndunum. Hins vegar er ég kominn á þau ár að ég er ekki lengur ginnkeyptur fyrir nýjum heimsskoðunum eða lífsskoðunum, né úniversalteoríum sem skýra allt, – líkt og bramalífselexírinn læknaði alla sjúkdóma þegar ég var drengur. Ég hef stundum sagt, að ég aðhyllist staðreyndir, en læt mér nægja eina staðreynd í einu.

VII. Við vorum blekktir

Matthías: Sumir hafa haldið því fram að þú hafir skrifað verri bækur eftir að þú fékkst Nóbelsverðlaunin, en aðrir að þú hafir skrifað öðruvísi bækur.

Halldór: Vel getur verið að ég hafi skrifað verri bækur. En það er ekki Nóbelsverðlaununum að kenna, heldur því að ég hef þá misst eitthvað af þeirri leikni eða gáfu til ritstarfa sem álitið er að Nóbelshöfundar eigi að hafa, og hafa kannski stundum, sumir. Einnig getur verið að það sé eitthvað bogið við lesendurna, margir lesendur missa hæfileikann til að lesa bók þegar þeir nálgast fertugt. Heimurinn er á hraðbraut í áttina til að hætta að lesa og eftir nokkur hundruð ár verður lestur líklega aðeins stundaður af sérmenntuðum úrvalshópum. Frá því ég fékk Nóbelsverðlaunin hef ég skrifað álíka margar bækur og árin eru mörg eða fleiri: bækur af öllu tagi. Ég hef á þessum tíma skrifað fjórar skáldsögur, smásagnasafn, sjö bindi af ritgerðum um allan fjárann, mörg leikrit og sitthvað fleira. Það getur sosum verið að þetta sé allt verra en það sem ég skrifaði fyrir 1955 og mér hefði verið nær að þagna þá. Þeir ágætu ritdómarar sem halda því fram verða að sanna sitt mál, „þeir sem betur kunna munu betur gjöra“, sagði Hallgrímur Pétursson þegar hann var búinn með Passíusálmana.

Matthías: Nú segja sumir að þú hafir svikið æskuhugsjónir þínar. Þú hlýtur að hafa orðið var við þetta á fimmtugsafmæli Barns náttúrunnar?

Halldór: Afmæli náttúrubarnsins? Áttu við þegar fröken Júdas kom og kyssti mig? Ég vona að skoðanir mínar hafi breytzt. Hver sá maður sem gengur með æskuhugsjón sína eins og steinbarn innan í sér alla sína hundstíð, er ekki mikils virði sem skáld; varla heldur sem manneskja.

Matthías: „Eins og allir miklir rasjónalistar trúðir þú á hluti sem voru helmíngi lygilegri en guðfræðin,“ segir Jón Prímus í líkræðunni yfir Dr. Godman Sýngmann í Kristnihaldinu. Þú hefur losað þig við öll þín steinbörn og þá hluti sem eru lygilegri en guðfræði.

Halldór: Ég hef aldrei tollað lengi innifrosinn í kennisetningum og stefnum, þó ég hafi kynnzt mörgu af því tagi og verið samferðamaður ýmsra postula. En allt snýst; heimurinn breytist og kenningarnar um leið, sjónarmiðin og mennirnir. Ef maður fylgir ekki breytilegum heimi, og neitar að endurskoða hugmyndir sínar, þó ný þekking hafi komið fram, þá er maður ekki á marga fiska, nema kannski sem flokkspólitíkus: áreiðanlega ekki sem rithöfundur.

Matthías: Ég ætla ekki að ræða uppgjör þitt sérstaklega, það hefur þú gert sjálfur í Skáldatíma. Hann olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma og var þá rækilega afgreiddur, eignaðist talsmenn og harmþrungna vonsvikna andmælendur. En um Gerska ævintýrið hefurðu sagt að það sé frá tíma sem er mjög ólíkur okkar tímum í mati á ýmsum miðstæðum hugmyndum … og mundi ekki núna verka á menn öðruvísi en sem sögulegt plagg; það sem maður skrifi um stjórnmál á einum tíma, geti verkað sem öfugmæli á öðrum. Þú varst áður fyrr kallaður nytsamur sakleysingi, mátti það til sanns vegar færa?

Halldór: Ef maður sem er ekki beinlínis játandi einhverrar sérstakrar stefnu á samleið með fulltrúum þeirrar sömu stefnu í einhverjum málum, þá er hann samferðamaður þeirra. En „nytsamur sakleysingi“ var bara eins og hvert annað pólitískt og hugsunarlaust skammaryrði.

Matthías: Þið voruð blekktir?

Halldór: Já, við vorum blekktir. Við héldum – vonuðum – að byrjað væri að framkvæma sósíalisma í heiminum. Okkur var bent á staðina þar sem alþýðan væri frjáls. Það var stalínisminn í Sovétríkjunum sem sveik okkur. Við vorum leyndir öllum annmörkum, ágöllum og ávirðingum þessa kerfis. Í leynilegu ræðunni á flokksþingi 1956 gerði æðsti maður Rússlands heyrinkunnugt með dæmum sem enginn hefur treyst sér til að véfengja, að þarna hafi verið grimmdarfullt bófafélag að verki, ekki síður illskeytt en fasistar Þýzkalands; a.m.k. sama manngerðin. Og báðir með þýzka heimspeki að undirstöðu og trúarjátningu.

Matthías: The New York Times hefur eftir þér að þú sért nú „mildly conservative“.

Halldór: Það verður að skilgreina hugmyndirnar frá degi til dags, annars tapa þær allri merkingu. Heimurinn bíður ekki kyrr frá degi til dags. Á okkar dögum þarf að skilgreina sósíalismann á nýjaleik með stuttu millibili. Engir tveir meina það sama þegar þeir segja sósíalismi. Oft er eins og tveir þokulúðrar séu að kallast á útí hafsauga, og þá eru það tveir sósíalistar. Á árunum 1920–’30 og fram undir stríð, trúðum við því að gott þjóðfélag hlyti að vera á næstu grösum og það væri tilvinnandi að berjast fyrir þessu góða þjóðfélagi. Sú trú skapaði þessar þjóðfélagslegu bókmenntir, sem svo eru nefndar og oft er vitnað í sem fordæmi núna. En svo stendur maður uppi andspænis nýjum tíma, nýrri vitneskju um staðreyndir, nýrri þekkingu; þar á meðal nýrri þekkingu á manninum. Það sem var heilagur sannleikur í gær eru svik og lygi og hræsni í dag. Og þjóðfélagið góða sem við ætluðum að skapa er hætt að vera skurðgoð eða guðsmynd. Við lifum á tíma þegar þarf að skilgreina sérhvert hugtak á nýjaleik af mennirnir eiga að halda velli sem skyni gæddar verur.

 

VI. KAFLI Mosdæla saga

Halldór Laxness segir um Innansveitarkroniku sína, að þar hafi hvert einasta pút og plagg grundvöll í veruleikanum, og raunar mætti taka enn dýpra í árinni, því að margt rís þar á bréfuðum og bókfærðum staðreyndum. Þannig er kronikunafngiftin í rökréttum tengslum við efnið.

„Eitt og annað er liðkað til í frásögninni,“ segir skáldið, „í því skyni að gera hana formfegurri; ártöl, nöfn eða staðir standa ekki alténd heima. Ég var að leita til baka, til upphafs skáldsögunnar, þar sem hún byrjar í kroniku eða eftirlíkingum af kroniku. Skáldsaga er ritstýrð sagnfræði og eftirlíkt sagnfræði. Maður þykist vera að tala um veruleika, en það er sá veruleiki þar sem höfundurinn skipar hlutunum sjálfur í röð, „rétta“ röð, a.m.k. eftir sinni beztu samvizku. Það er tilraun til að fá lesandann til að trúa sagnfræði, sem maður hefur ritstýrt sjálfur eða búið út. En skáldsaga er samt að því leyti raunveruleg, að höfundurinn getur aðeins sagt frá atburðum, mönnum, hugmyndum, flækjum og árekstrum, sem hann hefur sjálfur lifað. Hann hefur fólkið í handraða, a.m.k. í bútum, setur síðan bútana saman. Höfundurinn getur ekki farið út fyrir sína eigin reynslu; en hann ritstýrir henni. Hann býr sér til grind sem er þegar bezt lætur eins rökrétt og grind í húsi, síðan fyllir hann upp í grindina með reynslu sjálfs sín. Annað hefur hann ekki fram að færa en reynslu sjálfs sín. Maður er andsvar við þeim áhrifum, sem hann verður fyrir í lífinu. Þó er ekki þar með sagt, að ávallt takist að skrifa skáldsögu, sem reist er á þessari reynslu. Ýmsar ástæður liggja til þess að það mistekst. Það getur stafað af slappri greind höfundarins, sljórri tilfinningu hans um það sem gerist kringum hann, eða af því tjáningarmiðillinn er ekki í lagi. Dögum oftar ber fyrir augu texta, þar sem höfundinum er fyrirmunað að tjá sig.“

Aðalpersónan í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness er Mosfellskirkjan. Allt mannlíf bókarinnar, eða öllu heldur sveitarinnar, stendur í einhverju sambandi við hana. Í þessari kirkju býr haus Egils Skallagrímssonar. Auðvitað er frásögnin af honum fengin úr Egils sögu, en – hausinn er tákn um þann grundvöll, sem þjóðin á sér í fornsögunni, eins og skáldið segir í samtali okkar.

Egils saga greinir frá því, að kirkjan hafi staðið á Hrísbrú. Ólafur bóndi, ein helsta persónan í Innansveitarkroniku, telur að prestarnir á Mosfelli hafi stolið hausnum og kallar þá að gefnu tilefni ávallt „þessa anskota“. En ekki er ófyrirsynju, að Ólafur bóndi á Hrísbrú skírskoti til hauss Egils, svo mikilvægt tákn sem hann er í lífi og viðhorfum bændafólksins í Mosfellsdal fyrir síðustu aldamót. Séra Jóhann Þorkelsson, prestur á Mosfelli á þeim árum sem kronikan greinir, fær það hlutverk að láta rífa Mosfellskirkju og reisa aðra að Lágafelli gegn vilja sveitarinnar, sem snerist að minnsta kosti heilan hring í málinu. „Séra Jóhann sagði að guð mundi ekki vera fjær söfnuði sínum á Lágafelli þar sem legupláss var ótakmarkað en á Mosfelli sem hafði bara lítinn hól. Bændur í Mosfellshreppi höfðu sjálfir orðið að bera viðhald kirkna sinna á Mosfelli og í Gufunesi og borga auk þess 2 krónur á ári fyrir kirkjugrunn á Mosfelli sem náði ekki nokkurri átt, og 4 krónur á ári handa kirkjugarðshaldaranum: alls 6 krónur á ári á Mosfelli hjá 6 krónum um aldur og ævi á Lágafelli.

Má segja að þegar maður er kominn að Lágafelli sé orðið ódýrt að vera í himnaríki, sagði séra Jóhann að endíngu.“

Málið er leyst á venjulegan íslenzkan hátt, því er snúið í hálfkæring: Eiga þeir líka að borga 6 krónur sem fara til helvítis?

Á þeim punkti vegur tilveran salt og hyggilegt að fara að eins og feðgarnir, sem sagt er frá í kroniku Laxness. „Kolbeinn (sóknarnefndarformaður) í Kollafirði segir þá eftirfarandi sögu: Einusinni voru tveir feðgar að tæa hrosshár. Þá segir pilturinn uppúr eins manns hljóði: er það satt pápi minn að lausnarinn hafi stigið niður til helvítis? Ég veit það ekki, segir karlinn. Prestarnir eru eitthvað að segja það. Viskum ekki gefa um það. Viskum vera að tátla hrosshárið okkar.“ Halldór Laxness segir að þessi saga sé í þjóðsögunum. „Ég hélt að ég kynni hana utanbókar eins og hún er í þjóðsögunum,“ segir hann. „Mig minnti að þar stæði: tæa ull. Ég fann söguna aftur í þjóðsögum Brynjólfs frá Minna-Núpi, Tillag til alþýðlegra fornfræða, og sá þá að sagan er betur sögð hjá Brynjólfi en í þjóðsögunum. Þar stendur: tátla hrosshárið okkar. Það er miklu skemmtilegra orðalag. Þetta er alþjóðleg saga. Hún er til að mynda til í Frakklandi. Voltaire notar kjarna sögunnar sem lokaorð í Birtingi: Il faut cultiver notre jardin, sem merkir einfaldlega: maður á að rækta garðinn sinn, þ.e. vera ekki að skipta sér af því sem mann varðar ekkert um. Danir segja: Skomager, bliv ved din læst.“

Í fróðleiksskyni fer þjóðsagan hér á eftir, eins og Brynjólfur frá Minna-Núpi segir hana:

„Karl var að tæja hrosshár og sonur hans með honum. Þá sagði sonurinn: „Pápi minn, er það satt, að Jesús Kristur hafi stigið niður til helvítis?“ „Ég veit ekki drengur minn,“ segir karl, „svo segja prestarnir. Við skulum ekki gefa um það. Við skulum vera að tátla hrosshárið okkar.““

***

Kronika Halldórs Laxness gerist á þeim árum, þegar framþróunarkenningin var ekki fædd og takmarkið var að standa í stað, í hæsta lagi líkjast öfum sínum.

Hugsjónir höfðu þá ekki enn verið fundnar upp, slíkt orð var ekki til. Og náttúrufegurð var ekki til heldur. „Það voru þær aldir, þegar menn trúðu því, að Búlandstindur væri ljótur og andstyggilegur staður og Mývatn hefði orðið til af því að fjandinn mé á móti sólinni …“ Það var ekki heldur búið að finna upp hugtakið erfiði. Það kom síðar. Á þessum árum hefði enginn skilið þetta orð í Mosfellssveit. Halldór Laxness segir í samtali okkar að sér hefði orðið þetta ljóst, þegar því var lýst í Lesbók, í samtali við Ragnar Stefánsson bónda í Skaftafelli í Öræfum, hvernig bændur í Skaftafellssýslum þurftu að berjast við sanda, jökla og stórfljót þó þeir ekki væru nema að reka lömb. „Hvernig gat nokkur maður staðið í því að bera lömb fram og aftur um Vatnajökul eða vaða með þau yfir illfærustu fljót Evrópu?“ spyr skáldið. Þegar bóndinn er spurður hvort þetta hafi ekki verið erfitt, svarar hann: „Annars held ég að það sé nýtilkomið að tala um erfiði, að minnsta kosti hér um slóðir.“

***

Innansveitarkronika fjallar um kirkjuna á Mosfelli eins og fyrr greinir. Um það urðu mikil átök á sínum tíma, hvort rífa skyldi kirkjuna eða ekki og byggja aðra á Lágafelli. Mosfellskirkja var rifin. Inn í sagnfræðilegan stíl fyrri hluta bókarinnar kemur þessi skemmtilega frásögn af því, þegar Ólafur bóndi Magnússon á Hrísbrú kemur að Mosfelli og stendur á hlaðinu „með orf sitt reitt um öxl og veit ljásoddurinn beint upp … Nokkru utar á hlaðinu og nær sáluhliði stendur Bogi sonur hans sem gerst hafði skjaldsveinn föður síns í þessari för og hafði hrífu í hendi.“ Þeir eru að mótmæla sameiningu kirkna og niðurrifi Mosfellskirkju:

„Ég er búinn að fara til klénsmiðs, mælti þá Ólafur á Hrísbrú, en þessir ræflar eru svo úrættaðir að þeir kunna ekki leingur að smíða sverð.

Og hverjir ætla sosum að fara að berjast með sverðum núna Ólafur minn, spyr séra Jóhann.

Ólafur svarar: Til er ég og til er Bogi.

Ja það er nú það Ólafur minn, segir séra Jóhann. Mér dettur í hug hvort ég ætti ekki að vekja hana Gunnu þó í fyrra lagi sé og biðja hana að snerpa á könnunni.

Þá segir Ólafur: Heldur þú og þið anskotar að Egill Skallagrímsson frændi minn hafi farið að drekka kaffi þegar hann var í vígahug?

Því er nú ver og miður að ég á ekki öl einsog Egill var vanur að drekka, segir séra Jóhann. En gott kaffi er gott ef það er gott.“

Halldór Laxness sagði mér að séra Jóhann hefði skírt sig, þegar hann var prestur í Reykjavík. „Hann var síðasti prestur á Mosfelli áður en kirkjan var rifin. Yfirvöld létu rífa kirkjuna samkvæmt lögum um sameiningu kirkna frá 1882; þau lög voru reist á konungskipun frá 1774. Það tók því meira en hundrað ár að fá þessu boði framfylgt; guð tók stinnt í á móti í Mosfellssveit. Séra Jóhann þjónaði aldrei Lágafellskirkju, en fluttist til Reykjavíkur og varð dómkirkjuprestur og gekk í svörtum frakka og gallossíum og var með stórt nef. Hann hafði dimman og hlýjan málróm og talaði ósjálfrátt í einföldum spakmælum. Það var hann sem sagði meðal annars þessi minnisverðu orð: Góð blöð eru góð ef þau eru góð. Svona spakmæli eru þægileg og meiða engan,“ segir skáldið.

Í sögunni segir, að séra Jóhann hafi látið aftur annað augað fyrir guðssástar sakir, þegar hann gaukaði klukkunni að Ólafi á Hrísbrú, eftir að kirkjan hafði verið rifin.

„Ég hef heyrt, að kannski hafi það ekki verið að séra Jóhanni forspurðum sem klukkan hvarf,“ segir Halldór Laxness og bætir við að – „þeir höfðu gott álit á honum hér í sveitinni, enda var það líkt honum að gefa klukkuna höfuðóvininum til að dangla í, þegar honum leiddist.“ Skáldið bætir því við, að séra Jóhann hafi verið honum mjög hugleikinn. „Mér þótti feikna gaman að sjá hann á götu í Reykjavík og heyra hann skiptast á orðum við fólk. Hann kemur fyrir í Heimsljósi sem fangelsispresturinn og einnig kemur hann mikið við sögu í Brekkukotsannál. Hann er mjög ólíkur séra Jóni Prímusi, svo ég gat ekki komið honum að í Kristnihaldinu.“

***

Ólafur á Hrísbrú og Bjartur í Sumarhúsum eru ólíkar manngerðir, þó það sé nokkur svipur með þeim sem bændum. Viss skyldleiki er með svona bændakalla-harðhausum, eins og skáldið komst að orði. „En Bjartur er útpenslaðri en Ólafur, þ.e.a.s. meira málaður út í hörgul. Ólafur á Hrísbrú er bara teiknaður með fáum strikum; ekki útfyllt mynd; ekki rakin slóð hans frá æsku eins og Bjarts. Bjartur var fullur af rímum og skáldskap og hafði marga góða kosti umfram Ólaf. Þegar deilurnar stóðu sem hæst, lét Ólafur mikið að sér kveða hér í sveitinni og vildi fara í stríð út af kirkjunni. Þá sagði hann: „Til er ég og til er Bogi.“ Þetta er nú orðtak hér í Mosfellssveit, jafnvel stundum notað hér í húsinu. Þessi orð mætti festa upp yfir dyrum Mosfellskirkju. Mosdælir hafa séð, að þau voru fyndin. Bogi, sonur Ólafs, var manna ólíklegastur til hermennsku þeirra manna sem Mosdælir þekktu.“

Í Innansveitarkroniku segir skáldið á einum stað um Íslendinga: „Því hefur verið haldið fram að Íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um tittlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls … þó er enn ein röksemd sem Íslendíngar eru fúsir að hlíta, þegar alt um þrýtur, en það er fyndni; má vera aulafyndni. Við hlægilega lygisögu mýkist þjóðfélagið og fer að ljóma upp; jarðvegur sálarinnar verður jákvæður.“ Í samtalinu bætir skáldið við: „Þessi íslenzka fyndni er mjög sérkennileg og lætur stundum átök milli manna linast upp.“

***

Allt er þetta aðdragandi sjálfrar sögunnar um Mosfellskirkju. Síðari hlutinn fjallar um það, hvernig munaðarlaus drengur, Stefán Þorláksson úr Reykjavík, sonur Ösku-Láka sem kallaður var, lenti í Mosfellsdal og leiddi af því að kirkja var endurreist á Mosfelli í okkar tíð. Þó vissi enginn til þess „að Stefán Þorláksson hefði nokkru sinni farið með gott orð í lifanda lífi; prestur nokkur hefur sagt við undirritaðan, að Stefán þessi muni hafa verið álíka trúlaus og Konstantín mikli, sem þó sannanlega bjargaði kristindóminum. Aðminstakosti mundi enn sem komið er teljast ofílagt að reikna hann með trúarhetjum í Mosfellssveit. Samt varð hann styrkari stoð sönnum kristindómi í sveit þessari, mælt í krónum og aurum, en flestir helgir menn vorir urðu hvort heldur með þöglum bænahöldum eða háværum sálmasaung eða laungum prédikunum.“ Hann var kallaður Stefi og muna hann enn margir. Einkunnarorð hans í sögunni eru: kaupa, kaupa sama hvað kostar – en að sögn skáldsins eru þessi orð upphaflega komin frá Oddi í Glæsi. „En ég hef krítað þau hjá Stefa af skáldsöguteknískum ástæðum.“

***

Innansveitarkronika er helgisaga eða jarteinabók að því leyti sem jarteinir eru þau undur sem guð notar til að sanna almætti sitt undir votta í einhverju sérstöku máli á einhverjum tilteknum stað. Ólíklegasta fólkið verður verkfæri til að sanna almætti guðs; Stefán, fátækur drengur með nafnmiðann sinn saumaðan inn í úlpuna sína; Guðrún Jónsdóttir, kölluð Gunna stóra, ösku- og mógrafakerling; og Ólafur á Hrísbrú, þessi rustakarl sem var sannanlega enginn dýrlingur. „Ekkert af þessu fólki virðist hafa haft nokkra trúarlega glætu. Það bara sannaði almætti guðs í Mosfellssveit.“

Kaflinn um Stefa, þegar hann kemur fyrst lítill drengur að Hrísbrú, er skáldskapur sem festist í minni. Orðaskipti hans og Ólafs bónda, sem annars ekki vék hlýlega að gestum, óttaleysi drengsins við raunveruleikann, stórfljót og fjallgarða, en barnslegur ótti hans við ímyndanir sínar svo sem ræningja og hrynjandi fjöll, allt verður þetta ógleymanlegt. Hann vildi gera ál að hákarli með því að ala hann nógu vel á hornsílum, sem sagt; vildi einlægt gera mikið úr litlu. Mosfellskirkja hin nýja fæddist af framsýni í fébrögðum Stefáns Þorlákssonar. Klukkan í hana er komin þangað aftur fyrir tilstuðlan Ólafs bónda á Hrísbrú og kaleikurinn úr rusli eftir gamla konu sem dó á hreppnum á níræðisaldri 1936. „Einginn hafði vitað til að þetta munaðarlausa gamalmenni geymdi dýrgripa frammí dauðann; þaðanafsíður hvernig þessi kaleikur var kominn í hennar vörslur.“

Hver var þessi kona?

Hún hét Guðrún Jónsdóttir eins og í sögunni og „var í raun og veru kapítalisti, því hún var aldrei vistráðin en talin lausakona“. Í samtali okkar segir skáldið ennfremur: „Það er rétt, Guðrún Jónsdóttir var kapítalisti. Hún var ekki verkamaður. Hún lifði til að skemmta sér; hún tók ekki kaup; skemmtun hennar var að taka upp mó: hún var frjáls. Þessi kona veitti öðrum mönnum af auðlegð sinni ævilangt. Þegar hún var orðin gömul og farlama fór hún auðvitað á hreppinn.“ Skáldið heldur nafni hennar í sögunni eins og nafni á öðrum persónum, sem koma við kroniku Mosfellssveitar – en auðvitað með þeim fyrirvara sem stendur aftan á titilsíðu: „Skírskotanir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum.“ Halldór Laxness segir í samtalinu: „Krakki hér í sveitinni, hlustaði ég eftir öllu sem sagt var, og ég á mér ótæmandi endurminningasjóð um fólk sem ég samneytti á bernskuárum mínum. Það var ólíkt fólki sem ég kynntist síðar. Ég kom hingað á fjórða ári úr Reykjavík og þetta fólk var minn félagsskapur, þangað til ég fór að vera á vetrum í Reykjavík 12 ára við ýmiss konar nám. Guðrún Jónsdóttir var oft hjá okkur í Laxnesi, stundum misserum saman. Ég man enn eftir ýmsum orðatiltækjum hennar, og kem þeim að í sögunni. Hún sagði til að mynda þetta: „Ég kann bezt við mig í einhverju benvítis síli.“ Ég hef spurt orðabókamenn og þeir kannast ekki við þetta orðatiltæki. Það hefur ekki komizt á prent, svo ég viti, og ég hef engan heyrt nota það annan. En mér dettur ekki í hug að Guðrún Jónsdóttir hafi fundið það upp. Ég held að síli sé draslvinna eða vinnubjástur.“

Guðrún Jónsdóttir kom til Þórðar Jónssonar og Kristínar Vigfúsdóttur að Æsustöðum 1926 og hafði þá verið í Laxnesi. Hún átti kindur og hryssu, þegar hún var í fyrra skipti á Æsustöðum. Hún heyjaði þá Gunnubarð, sem svo var kallað, en nú er innan túns. Hún sló sjálf og batt. Hún hafði sérstakt skap og gott að vera í návist hennar. Hún var fædd í Hamrahlíð 26. desember 1854 og lézt á Æsustöðum 24. marz 1936. Hún var greftruð á Mosfelli. Hamrahlíð er ekki lengur í byggð, en er nú undir Blikastöðum. Andlit Guðrúnar og höfuðlag allt var af mynd að dæma stórskorið eins og landið.

***

Í upphafi ellefta kapítula sögunnar segir svo: „29unda júní sama vor og Mosfellskirkja var rifin mátti lesa eftirfarandi grein undir fyrirsögninni „Saga af dýru brauði“ í vikublaðinu Öldinni, og má gánga þar að henni ef einhver nennir að fara á bókasöfn og lesa gamlar blaðagreinar.“ Saga þessi fjallar um villu Gunnu stóru á Mosfellsheiði, þegar hún vitjaði pottbrauðs. Ungur piltur úr sveitinni tekur hana tali og spyr um villuna, rétt eins og blaðamaður eigi samtal við sérkennilega konu – en þó verðum við að hafa á þann fyrirvara, að hvorki frásögnin í Öldinni né lýsing Gunnu stóru í samtalinu eiga rætur í raunveruleikanum, og ekki heldur samtalið sjálft. Villur Guðrúnar í Innansveitarkroniku eru uppspuni. En svipaða sögu heyrði skáldið sunnan af Suðurnesjum. Þar var stúlka að villast hátt upp í viku í hrauninu á Reykjanesskaga. Hún hafði verið að vitja pottbrauðs í hveraholu. Gunnar Eyjólfsson leikari sagði skáldinu þessa sögu. Stúlkan sem villtist var að hann minnir amma leikarans eða ömmusystir. Þetta dæmi sýnir vel að skáld leita víða fanga. „Flest verður fróðum að kvæði,“ segir máltækið. Allt verður að söguefni, þótt ekki sé það sagnfræði í venjulegum skilningi.

„Ég var að hlusta á útvarpið um daginn,“ segir skáldið. „Þar kom fram maður, sem spurður var frétta úr byggðarlagi sínu. Hann byrjaði frásögnina svona: „Vorið hefur verið gott fyrir sauðfé.“ Þessi maður kom mér í gott skap.“

Í Innansveitarkroniku miðast allt líf og öll tilvera við sauðfé. Þegar feðgarnir á Hrísbrú taka menn tali á hlaðinu og spyrja frétta, beinist talið alltaf að sauðfé, „því alt líf í landinu var einsog þann dag í dag miðað við sauðfé. Til dæmis þegar talað var um veður þá var það eitt sjónarmið ráðandi hversu það mætti henta sauðfé. Gott veður var það veður sem var gott fyrir sauðfé. Gott ár var það þegar óx gras handa sauðfé. Fallegt landslag á Íslandi þykir þar sem góð er beit handa sauðfé. Afkoma og sjónarmið manna í lífinu voru ákvörðuð af þessari skepnu. Hrísbrúíngar höfðu fréttir af sauðfé hvaðanæva af landinu og sögðu sögur af afkomu sauðfjár í Mosfellssveit. Þeir mundu nákvæmlega hvernig viðrað hafði fyrir sauðfé ár framaf ári þrjátíu ár aftur í tímann. Þessir menn fóru aldrei í utanyfir sig, en ullartreyur þeirra og peysur héldu vatni og vindi einsog reifið á íslenskri sauðkind.“

„Nú er sveitasagnfræðin komin í blöðin,“ segir Halldór Laxness enn í samtali okkar. „Bændur romsa upp einhverjum lifandi feiknum um harðærið í sveitunum með tilheyrandi útmálun á því hvernig veðrið var í fyrra og hitteðfyrra. Þetta eru oft einu greinarnar sem ég les í blöðunum. Steini á Valdastöðum var eftirlætisblaðamaður minn. Ég las einlægt fréttirnar hans í Morgunblaðinu tvisvar, stundum í þriðja sinn upphátt fyrir heimilisfólkið. Þrátt fyrir mörg mótdræg tíðindi í sveitum var hann eini fréttaritarinn í blöðunum sem sló ævinlega huggunarríka nótu. Þegar hann var búinn að lýsa þessum feiknarlegum óþurrkum sem gengið höfðu allt sumarið bætti hann alltaf við að það væri von manna að nú færi að breytast til batnaðar upp úr höfuðdeginum.“

Eitt var það fyrirbrigði í sveitum landsins áður fyrr og minnzt er á í Innansveitarkroniku, sem hvergi annars staðar í löndum á sér hliðstæðu. Það var sá siður að leggjast í kör. Kona Ólafs á Hrísbrú, 5björg, lagðist í kör: „Dag nokkurn um það bil sem börn hennar voru vel komin á legg lagðist hún í kör og reis ekki upp síðan; en kör hefur verið ein mikilsverðust þjóðfélagsstofnun á Íslandi frá því land bygðist. Það var sagt að konan væri búin að liggja átján ár í körinni …“

Skáldið segir að einkennilegt sé hve margir Íslendingar lögðust í kör. „Þetta hugtak er ekki til í erlendum málum og orðið er illþýðanlegt; samt er ekki hægt að komast hjá því í bók eins og Innansveitarkroniku. Þeir sem lögðust í kör voru oft giktveikir eða kalkaðir í hrygg og mjöðmum og áttu erfitt með að bera sig um húsin, sem voru köld og saggasöm; sumir voru hjartveikir eða höfðu fengið áföll og leið bezt milli rekkjóðanna og höfðu sig ekki upp framar. Kannski var þetta að einhverju leyti lífsflótti eða mótmæli. Kör var nokkurs konar þjóðfélagsstofnun sem var tekin gild.“ Hann segir að merkilega frásögn sé að finna um kör í æviminningum Sigurðar Briems póstmeistara um karl í Húnavatnssýslu, sem tekur sig allt í einu upp heiman frá sér og ríður með nokkra hesta vestur á land til dóttur sinnar – til að leggjast í kör. Þegar karlinn kemur vestur, háttar hann og liggur nokkur ár, en þá kemur upp ósamkomulag á heimilinu milli hans og dótturinnar og fer í hart, svo að karl unir ekki lengur fyrir vestan, rís upp úr körinni, fær sér hesta og ríður í vonzku aftur heim í Húnavatnssýslu – og er hættur við að liggja í kör.

Og nú er komið að lokum frásögu af Innansveitarkroniku Halldórs Laxness. Til að ná saman endum er ráðlegast að halda áfram, þar sem fyrr var frá horfið. Skáldið hafði minnzt á, að skáldsagan væri ritstýrð sagnfræði. Í framhaldi hugleiðinga hans um það efni má bæta við þessum orðum hans: „Ég hef mikið hugsað gamanlaust um rætur skáldsögunnar. Hvernig á að segja frá, svo að það hafi tilætluð áhrif á þann, sem maður er að segja söguna? Hvernig á að fá hann til að taka eftir og hlusta og hugsa þó sjálfan um leið? Skáldsaga hefur því aðeins tekizt, að hún eignist lesendur. En þeir þurfa reyndar ekki að vera mjög margir.

Íslenzkur sagnaskáldskapur forn hefur hjálpað mér í leit að viðhlítandi formi. Í Innansveitarkroniku hef ég sérstaklega lagað mig eftir því, hvernig þessir ósviknu sveitasagnfræðingar sem ekki voru sagnaskáld skrifuðu og skrifa enn. Þetta eru bændur sem sjá veröldina fyrir sér eins og útvíkkaða sveit sína í tíma og rúmi. Tökum mann eins og Jón Indíafara frá 17. öld. Hann kemur úr afskekktri sveit vestanlands og þó hann lendi í því að sigla til Indlands, er hann ævinlega að skoða heiminn frá bæjardyrum sínum heima í sveitinni sinni. Hugleiðingar hans og lýsingar eru ekta íslenzk sveitasagnfræði, þó hann sé að lýsa Indlandi. Sama má segja um Eirík frá Brúnum; hvort heldur hann lýsir hóruhúsunum í Kaupmannahöfn eða kóngafólkinu þar, ellegar sæluríkinu í Utah, þá er hann ævinlega kyrr á hlaðinu heima hjá sér á Brúnum. Gísli Konráðsson er einnig dæmigerður sveitasagnfræðingur. Hann er oft hálf leiðinlegur og daufur, fullur af þurrum fróðleik, en þegar minnst varir, og í skyndingu, þegar maður hélt að karlinn væri sofnaður, dregur hann upp mynd af stórsögulegum, dramatískum atburðum með einföldum, en skörpum dráttum, og umvafða birtu leiftursins, svo áþreifanlega að lesandinn vaknar með andfælum. En það er eins og hann taki ekki eftir því sjálfur. Stundum aftur á móti, þegar hann kemur að stórviðburðum, setur hann allt í einu tóndeyfi á strengi sína í staðinn fyrir að maður hefði búizt við að nú hækkaði hann röddina og færi að æpa. Nei, ekki aldeilis. Þá laumar hann út úr sér svo bitrum athugasemdum að þar tekur steininn úr, til að mynda þegar hann lýsir aðför norðlenzkra bænda að Grími amtmanni á Möðruvöllum. Þetta voru svangir menn og áreiðanlega kaffiþyrstir, margir komnir langt að. Grímur amtmaður átti forláta hund. Gísli læðir því þá út úr sér í frásögn sinni, að mjög hafi amtmaður þurft að vanda hundi þessum kaffi.

Og náttúrlega Brynjólfur frá Minna-Núpi! Sagan af Þuríði formanni og Kambránsmönnum er eindregin íslenzk sveitasagnfræði. En allir þessir sveitakarlar hafa bakstoð í fornsögunum, þó höfundar fornsagnanna séu önnur tegund höfunda: miðaldalærdómsmenn, akademískir menn.

Ég gæti talið upp heilan fans af nútímamönnum sem skrifa sveitasagnfræði, sumt ágætlega, til dæmis innvirðulegar minningabækur Eyjólfs Guðmundssonar á Hvoli í Mýrdal og minningar Ingunnar á Kornsá, elskulegt rit.

Annálaritarar skrifuðu ekki svona. Þeir skrifuðu tómar upptalningar á stórviðburðum: fæddist lamb með tvö höfuð, eldur í Heklu, menn í loftinu, og því um líkt; ópersónulegt dót. Menn eins og Jón Espólín hafa ekki vakið sérstaka athygli mína. Hann er dálítið metnaðargjarn rithöfundur og tilgerðarlegur í orðfæri og stíl, reynir að skrifa fornsagnastíl eins og óekta sveitamaður.“

***

Sagan af því þegar Mosfellskirkja var rifin hefur þótt hnýsileg í Mosfellssveit. Lengi vel var ekki útlit fyrir að kirkja mundi aftur rísa á Mosfelli. En þegar Stefán Þorláksson deyr kemur í ljós að hann hefur gefið fé til að ný kirkja yrði reist á Mosfelli. „Þá var sagan fullkomnuð,“ segir skáldið. „Þeir voru byrjaðir að marka fyrir kirkjunni og grafa grunninn, þegar ég fór til Róms 1963 að sitja ráðstefnu sem FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) efndi til í undirbúningi herferðar gegn hungri í heiminum. Að ráðstefnunni lokinni settist ég upp hjá frú Dinesen og gerði þar grindina að þessari sögu. Ég átti auðvelt með að timbra upp þessa grind, því atburðaröðin er fullkomin í sjálfri sér og þar var litlu við að bæta, enda urðu kirkjusmiðirnir ári á eftir mér að reisa kirkjuna til fulls.“

1. hluti | 2. hluti | 3. hluti