Fjölskyldan

Auður Sveinsdóttir ásamt yngri systrum sínum Ásdísi og Fríðu.

„Hvað man ég fyrst? Ég held ég muni fyrst eftir mér, þegar systir mín yngri fæddist. Fríða. Þá man ég að pabbi kom og sagði: hann Nonni er að fæðast…“

Á þennan veg hefjast endurminningar Auðar Sveinsdóttur í eiginhandriti hennar en í safni Gljúfrasteins − húss skáldsins er handrit, vélritað og unnið af Auði sjálfri, sem síðar átti eftir að koma fyrir sjónir íslenskra lesenda síðla árs 1984 í viðtalsbókinni Á Gljúfrasteini − Edda Andrésdóttir ræðir við Auði Sveinsdóttur Laxness. Viðtalsbókin naut mikilla vinsælda, seldist upp og hefur verið ófáanleg um langa hríð. Vinsældir hennar eru til vitnis um þann mikla áhuga sem var og er á persónu Auðar og margþættu hlutverki hennar á Gljúfrasteini og sem lífsförunautar nóbelskáldsins Halldórs Laxness.

Fyrsta minning Auðar tengist fæðingarstað hennar á Eyrarbakka og það var ekki Nonni sem fæddist þennan dag heldur Fríða, yngst þriggja svipmikilla og náinna systra. Auður var þeirra elst, fædd í samkomuhúsinu Fjölni á Eyrarbakka hinn 30. júlí árið 1918, dóttir hjónanna Halldóru Kristínar Jónsdóttur og Sveins Guðmundssonar járnsmiðs. Næstelst var Ásdís Sveinsdóttir, síðar Thoroddsen, og yngst Fríða Sveinsdóttir. Á Eyrarbakka býr Auður fyrstu æviárin á fallegu heimili eins og hún átti síðar eftir að minnast: „Sófi og stólar, klætt rauðu ullarsatíni, stórt kringlótt borð á miðju gólfi, konsúlspegill og skápur“ (Edda Andrésdóttir og Auður Sveinsdóttir Laxness, Á Gljúfrasteini, 10).

Lýsing Auðar á stofunni heima á Eyrarbakka, þar sem hún ólst upp fram að sjö ára aldri, sýnir glöggt hversu næmt auga hún ætíð hafði fyrir umhverfi sínu; hver gripur, form hans, litur og staðsetning skipti máli eins og sést vel á heimili hennar og Halldórs á Gljúfrasteini. Auður minnist einnig foreldra sinna með hlýjum hug; sjálfstæðrar mömmu, nútímakonu sem vann á sýslumannsskrifstofunni, æfði kóra, söng í kirkjunni og kenndi ensku (Edda Andrésdóttir og Auður Sveinsdóttir Laxness, Á Gljúfrasteini, 10). Bæði mótuðu þau Halldóra Kristín og Sveinn fegurðarskyn Auðar og voru samverkamenn hennar í því að innrétta Gljúfrastein á vandaðan og smekklegan hátt þrátt fyrir að vöruskortur væri ríkjandi árið sem þau Halldór fluttu inn í nýbyggt húsið í Mosfellsdalnum árið 1945.

Auði og Halldóri fæddust tvær dætur þær Sigríður Halldórsdóttir fædd árið 1951 og Guðný Halldórsdóttir árið 1954. Auk þeirra dvöldu oft börn úr fjölskyldunni og af bæjunum í kring á Gljúfrasteini. Systrabörn Auðar minnast þess mörg að hafa dvalið á Gljúfrasteini og notið kyrrðarinnar í sveitinni og umhyggju frænku sinnar. Börnin frá Dalsgarði í Mosfellsdal léku sér við stelpurnar á Gljúfró, eins og Gljúfrasteinn var gjarnan kallaður í daglegu tali. Signý Jóhannsdótttir sem ólst upp í Dalsgarði minnist þess að á heimili Auðar og Halldórs hafi allir verið velkomnir og börnin leikið sér frjáls um allt húsið. Heimasæturnar mótuðust af umhverfi sínu í dalnum, Auður kallaði þær sveitakonur í endurminningabók sinni:

„Þær eru miklu meiri sveitakonur en ég; skilja sveitalífið betur“ (Edda Andrésdóttir og Auður Sveinsdóttir Laxness, Á Gljúfrasteini, bls. 78).

Báðar áttu dæturnar eftir að byggja sér hjáleigu við Gljúfrastein og ala þar upp sín börn. Barnabörn Auðar og Halldórs urðu fimm og nutu umhyggju ömmu og afa í næsta nágrenni. Börn Halldórs af fyrra sambandi, María Halldórsdóttir dóttir Halldórs og Málfríðar Jónsdóttur, og Einar Laxness sonur Halldórs og fyrri eiginkonu hans Ingu Laxness voru að sögn Auðar uppistaðan í öllum fjölskylduhátíðum á Gljúfrasteini ásamt mökum sínum, börnum og nánustu ættingjum Auðar.

Á heimilinu dvöldu oft vinir og ættingjar. Foreldrar Auðar voru henni stoð og stytta þegar húsið var byggt og það innréttað. Þau stóðu einnig fyrir því að í kringum húsið uxu tré en garðyrkja var sameiginlegt áhugamál þeirra hjóna Halldóru Kristínar Jónsdóttur og Sveins Guðmundssonar. Ungar stúlkur hérlendar og erlendar komu og dvöldu um lengri eða skemmri tíma og aðstoðuðu húsfreyjuna í þeim miklu önnum sem heimilishaldi á Gljúfrasteini fylgdi. Auður átti eftir að halda miklu og góðu sambandi við margar þessara stúlkna og skrifast á við þær í fleiri ár. Jytte Eyberg dönsk stúlka sem varð hálfgerð fósturdóttur hjónanna á Gljúfrasteini var ein sú röskasta sem Auður hafði kynnst og hluti eldhúsdeildarinnar eins og Auður kallaði þann hóp sem bar hitann og þungann af öllum þeim stóru og smáu veislum sem haldnar voru á heimilinu.

Stöðugur straumur var af óvæntum gestum af ýmsum toga og undrast margir enn hvernig Auður á Gljúfrasteini fór að í þessum miklu önnum. En hún var dugnaðarforkur og átti ekki langt að sækja það til foreldra sem alla tíð voru annáluð fyrir verkvit og dugnað. Í dalnum mátti líka treysta á aðstoð þegar mikið lá við, Guðjón Einarsson æskuvinur Auðar og lærður kokkur var einnig oft hluti af eldhúsdeildinni svokölluðu. Börnin tóku gjarnan þátt í undirbúninginum og þannig lögðust allir á eitt við að halda heimilinu opnu hverjum þeim sem leið átti hjá þessu sannkallaða myndarheimili í Mosfellsdalnum.