Dægurperlur í flutningi Hönnu Dóru Sturludóttur og Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur

Hanna Dóra Sturludóttir söngkona og Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanisti

Hanna Dóra Sturludóttir söngkona og Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari komu fram á sjöttu stofutónleikum sumarins sunnudaginn þann 6. júlí. Þær léku íslenskar dægurperlur, lög eftir Sigfús Halldórsson og Ása í Bæ.

Hanna Dóra Sturludóttir stundaði söngnám hjá Kristni Sigmundssyni og Snæbjörgu Snæbjarnar við Söngskólann í Reykjavík áður en hún hélt til framhaldsnáms við Listaháskólann í Berlín. Þaðan útskrifaðist hún með viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur og stuttu síðar fékk hún tilnefningu sem efnilegasta söngkona Þýskalands. Hanna Dóra hefur sungið við mörg helstu óperuhús Þýskalands og komið fram á tónleikum vítt og breitt um Evrópu og víðar s.s. eins og í Katar og Egyptalandi. Á Íslandi hefur hún haldið fjölda ljóðatónleika og sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands við fjölmörg tækifæri. Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2013 fyrir flutning sinn á Wesendonckljóðum Richards Wagner með Sinfóníuhljómsveit Íslands síðastliðið vor og fyrir túlkun sína á titilhlutverkinu í Carmen eftir Bizet hjá íslensku óperunni á nýliðnu hausti.

Steinunn Birna Ragnarsdóttir fæddist í Reykjavík og stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þaðan lauk hún einleikaraprófi árið 1981. Kennari hennar var Árni Kristjánsson. Hún lauk meistaragráðu frá New England Conservatory of Music í Boston, USA, árið 1987 undir handleiðslu Leonards Shure. Steinunn Birna starfaði um tíma á Spáni og kom þar fram sem einleikari og með ýmsum kammerhópum. Hún hefur hlotið ýmiss verðlaun og viðurkenningar fyrir leik sinn og komið fram á fjölmörgum tónleikum, hérlendis og erlendis bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar auk þess að koma fram á ýmsum alþjóðlegum tónlistarhátíðum. Steinunn Birna hefur sent frá sér nokkrar geislaplötur þar á meðal Slátta eftir Jórunni Viðar og Ljóð án orða með Bryndísi Höllu Gylfadóttur sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 1998. Steinunn Birna er stofnandi og stjórnandi Reykholtshátíðar, en hefur starfað sem tónlistarstjóri Hörpu síðan í ágúst árið 2010.