Fallegir tónar á safnadaginn

Arnhildur Valgarðsdóttir og Ástríður Haraldsdóttir, fjórhent á píanó

Á safnadaginn þann 13. júlí léku þær Ástríður Haraldsdóttir píanóleikari og Sarah Buckley vióluleikari fyrir fullu húsi. Upphaflega áttu Arnhildur Valgarðsdóttir og Ástríður Haraldsdóttir að leika fjórhent á píanó en Arnhildur forfallaðist á síðustu stundu. Sarah Buckley bjargaði málunum, fyllti hennar skarð og lék á víólu.

Ástríður Haraldsdóttir fæddist í Reykjavík 3. febrúar 1962. Hún lauk píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og eftir það tveggja ára framhaldsnámi í píanóleik frá sama skóla. Hún hefur sótt masterklassa í Tékklandi og einnig verið í tímum hjá Lili Raeburn sem kennir í London. Ástríður hefur starfað við píanóleik í mörg ár bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra tónlistarmenn. Hún hefur unnið mikið sem meðleikari með kórum og komið fram á fjölda tónleika, hér heima og erlendis. Hún starfar líka sem píanókennari og er meðleikari við Suzukitónlistarskólann í Reykjavík.

Sarah Buckley er fædd í Bretlandi árið 1964. Hún lauk Bachelor of Music gráðu frá háskólanum í Manchester og síðan framhaldsnámi í víólu frá Royal Academy of Music. Sarah spilar í Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennir á víólu í Suzukitónlistarskólanum í Reykjavík. Hún tekur einnig þátt í kammertónlist við ýmis tækifæri.

Efnisskrá
F. Kreisler: Liebeslied (umritað fyrir víólu af Alan H. Arnold ASCAP)
M. Marais: Old French Dances
I.    L‘Agréable
II.  La Provenҫale
III. La Matelotte
IV. Le Basque
M. Bruch: Romanze op. 85 (umritun fyrir píanó af D. Preucil)
J. Brahms: Ungverskur dans nr. 5
The Londonderry Air - írskt þjóðlag útsett af Lionel Tertis