11. júní. Stofutónleikar: Leikfélag Mosfellssveitar flytur vel valin lög úr Skilaboðaskjóðunni

Félagar úr Leikfélagi Mosfellsveitar munu koma fram á stofutónleikum Gljúfrasteins næstkomandi sunnudag þann 11. júní. Flutt verða lög eftir Jóhann G. Jóhannsson við texta Þorvaldar Þorsteinssonar úr söngleiknum Skilaboðaskjóðunni.

Leikarar úr Skilaboðaskjóðunni

Leikfélag Mosfellssveitar setti á svið hinn sívinsæla ævintýrasöngleik Skilaboðaskjóðuna fyrr á þessu ári, en söngleikurinn er byggður á samnefndri bók Þorvaldar Þorsteinssonar með lögum eftir Jóhann G. Jóhannsson. Sagan fjallar um Putta litla sem býr í Ævintýraskógi, en hann langar mest af öllu að verða hugrakkur ævintýraprins. Hann heldur af stað um miðja nótt í leit að nátttrölli, en verður fyrir því óláni að festast inní helli nátttröllsins. Maddamamma og allir íbúar ævintýraskógarins taka höndum saman, og með hjálp Skilaboðaskjóðunnar ná þau að bjarga Putta litla úr klóm nátttröllsins.

Leikfélag Mosfellssveitar var stofnað árið 1976 og hefur haldið uppi öflugri leiklistarstarfsemi í Mosfellsbæ síðan þá. Hjá leikfélaginu eru að jafnaði settar upp tvær leiksýningar á ári auk þess sem félagið tekur þátt í hinum ýmsu viðburðum í bænum, svo sem hátíðarhöldum á 17. júní og álfabrennu á þrettándanum. Leikfélagið starfrækir einnig leiklistarnámskeiðin Leikgleði. Leikfélagið hefur tvisvar sinnum hlotið titilinn Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar, fyrst árið 1996 og svo aftur árið 2015.

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 4. júní til 27. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðaverð er 2000 krónur.

Dagskrá stofutónleikanna í heild sinni.

Til baka í viðburði