Jóhann Kristinsson og Ammiel Bushakevitz á stofutónleikum 28. júlí

Jóhann Kristinsson og Ammiel Bushakevitz flytja sönglög eftir Franz Schubert á stofutónleikum á Gljúfrasteini sunnudaginn 28. júlí kl. 16:00.

Ammiel Bushakevitz píanisti fæddist í Ísrael og ólst upp í Suður Afríku. Hann kemur reglulega fram á virtum tónlistarhátíðum víða um heim, t.d. Salzburger Festspiele, Bayreuth Festival, Lucerne Festival, Festival d'automne à Paris, Festival Pontino di Latina Roma, the Jerusalem Schubertiade, the Vancouver Chamber Music Series í Kanada og Festival d'Aix-en- Provence í Frakklandi.

Hann hefur unnið til fjölda verðlauna, bæði fyrir einleik sinn og einnig sem meðleikari fyrir ljóðasöng. Þar á meðal eru Richard Wagner verðlaunin, Evrópusambandsverðlaunin, The Oppenheimer Trust Award, verðlaun borgarinnar Lausanne í Sviss, meðleikaraverðlaunin í Wigmore Hall keppninni og meðleikaraverðlaunin í „Das Lied” keppninni. Hann var útnefndur Edison Fellow of the British Library í London árið 2014. Ammiel stundaði nám við Hochschule für Musik und Theater “Felix Mendelssohn Bartholdy” í Leipzig og við Conservatoire Nationale Supérieur de Musique í París. Phillip Moll, Boris Berman og Alfred Brendel eru meðal hans helstu leiðbeinenda.

Ammiel gaf út sinn fyrsta hljómdisk árið 2013 með seinni píanóverkum Franz Schuberts. Síðan þá hefur hann gefið út Impromptus eftir Schubert (Lissabon, Hänssler Classics), Sónötur Mozarts fyrir píanó og fiðlu (Barcelona 2015, Solfa Records) og disk með ljóðasöngvum Franz Liszt með tenórnum Timothy Fallon (Jerusalem 2015, BIS Records).

Ammiel var einn af síðustu nemendum Dietrich Fischer-Dieskaus en hefur einnig notið leiðsagnar Elly Ameling, Thomas Quasthoff, Thomas Hampson, Matthias Goerne, Barbara Bonney og Teresa Berganza auk annarra. Árið 2011 var honum boðið að leika undir á námskeiðum Dietrich Fischer-Dieskau í Listaháskólanum í Berlín og í Schwarzenberg Schubertiade í Austurríki.

Jóhann Kristinsson hóf söngnám hjá Bergþóri Pálssyni árið 2009. Árið 2015 hóf hann nám við Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín og naut þar leiðsagnar Scot Weir, Thomas Quasthoff og Júliu Várady. Utan skóla hefur hann notið leiðsagnar Kristins Sigmundssonar, Thomas Hampson, Christian Gerhaher og Helmut Deutsch meðal annarra. Frá 2017-2019 var hann meðlimur Óperustúdíósins við Ríkisóperuna í Hamborg.

Hann hlaut þriðju verðlaun og áhorfendaverðlaun alþjóðlegu ljóðasöngskeppninnar „Das Lied” árið 2017 í Heidelberg. Einnig komst hann í úrslit alþjóðlegu Robert Schumann keppninnar árið 2016.

Herbert Blomstedt, Kent Nagano, Pier Giorgio Morandi og Stefano Ranzani eru meðal hljómsveitarstjóra sem Jóhann hefur unnið með.

Í fyrra hlaut Jóhann Íslensku Tónlistarverðlaunin í flokknum bjartasta vonin. Hann var einnig tilnefndur sem söngvari ársins og fyrir tónlistarviðburð ársins, fyrir ljóðatónleika í Salnum í Kópavogi.

Á þessu leikári mun Jóhann syngja í þremur uppfærslum í Ríkisóperunni í Hamborg. Hann mun einnig koma fram með BRSO Sinfóníuhljómsveitinni í Gasteig í München, NDR hljómsveitinni í Elbfílharmóníunni í Hamborg og með La Scala Kammersveitinni í Mílanó.

 

Stofutónleikar Gljúfrasteins eru haldnir hvern sunnudag frá 2. júní til 25. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2500 kr. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri. 

Dagskrá stofutónleikanna má sjá í held sinni hér.

Til baka í viðburði