Hljómsveitin Eva á Safnanótt

Hljómsveitin Eva mun leika fyrir gesti Gljúfrasteins á Safnanótt.

Ljósmynd: Rut Sigurðardóttir

Hljómsveitin samanstendur af þeim Sigríði Eir Zophoníasardóttur og Völu Höskuldsdóttur sem leika kántrískotið femínískt pönk með þýðum og þjóðlegum undirtón. Hljómsveitin Eva er þekkt fyrir töfrandi og líflega framkomu sem kemur áhorfendum sífellt á óvart, kitlar hláturtaugarnar og snertir hjörtun um leið. Hljómsveitin dansar á mörkum tónlistar og sviðslista en hljómsveitin vill meina að hún sé ekki bara hljómsveit heldur sé hún einnig sviðslistahópur, pólítísk hreyfing og sjálfshjálpargrúppa.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og er aðgangur ókeypis. Opið verður á safninu fram að tónleikum og safnmenn verða á vappinu og spjalla við gesti og gangandi.

Safnanæturstrætó mun ganga endurgjaldslaust að Gljúfrasteini fyrir og eftir tónleikana. Lagt verður af stað frá Kjarvalsstöðum kl. 19.50 og til baka að Kjarvalsstöðum að tónleikum loknum um 21.30.

Hér gefur að líta tímatöflu safnanæturstrætó

Verið velkomin.

Til baka í viðburði