Guðný Guðmundsdóttir og Carey Lewis á stofutónleikum 14. júlí

Guðný Guðmundsdóttir og Carey Lewis flytja tvær öndvegissónötur eftir Bach og Franck á næstu stofutónleikum á Gljúfrasteini sunnudaginn 14. júlí kl. 16:00.

Guðný Guðmundsdóttir og Cary Lewis voru samnemendur í tónlistarháskólanum, Eastman School of Music í Rochester New York. Hún var á fyrsta ári í Bachelor námi og hann á síðasta ári í doktorsnámi. 
Þau léku Cesar Franck sónötuna saman á tónleikum í maí árið 1968. Síðan eru liðin 51 ár. Þau hafa bæði átt farsælan feril, sem flytjendur og kennarar og munu nú leiða saman hesta síðan á ný eftir rúmlega hálfa öld og flytja aftur sónötu Francks, sem óumdeilanlega er allra vinsælasta og frægasta fiðlusónata allra tíma. Sónatan var samin árið 1886. Þegar þau léku hana saman var sónatan 82ja ára, en nú er hún 133ja ára. Það er í rauninni samskiptamiðlinum Facebook að þakka að þau hittust aftur og hafa verið í sambandi undanfarin ár og í framhaldi af því tóku upp þráðinn aftur!

Guðný Guðmundsdóttir er löngu orðin landsþekkt fyrir störf sín, sem konsertmeistari Sinóníuhljómsveitar Íslands og sem kennari margra fremstu fiðluleikara landsins. Hún hefur staðið á hljómleikapalli frá 7 ára aldri og var ráðin konsertmeistari aðeins 26 ára gömul og var þá meðal fyrstu kvenna í heiminum að hljóta þá ábyrgðarstöðu, sem einungis karlmönnum hafði verið treyst fyrir. Hún hefur haldið fjölda tónleika um víða veröld og er heiðursprófessor við Listaháskóla Íslands.

Cary Lewis hefur um áratugaskeið verið eftirsóttur sem einleikari, kammertónistarmaður og kennari. Hann er meðlimur í hinu fræga Lanier píanotríói ásamt fyrrverandi konsertmeistara í Cleveland Sinfóníuhljómsveitinni og Dorothy Lewis,sellóleikara. Tríóið hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir hljóðritanir, m.a. af öllum píanótríóunum Dvořáks. Cary Lewis hefur komið fram í mörgum helstu tónleikasölum heims. Hann er listrænn stjórnandi kammertónlistar á Astoria tónlistarhátíðinni og er reglulegur gestur á tónlistarhátíðum vítt og breitt um Bandaríkin, Suður Ameríku, Evrópu, Ástralíu, Austurlönd fjær og víðar.

Stofutónleikar Gljúfrasteins eru haldnir hvern sunnudag frá 2. júní til 25. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2500 kr. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri. 

Dagskrá stofutónleikanna má sjá í held sinni hér.

Til baka í viðburði