Djass á stofutónleikum Gljúfrasteins

Á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins, á þjóðhátíðardaginn sjálfan þann 17. júní leiða saman hesta sína tveir af fremstu jazzleikurum þjóðarinnar.

Ari Bragi Kárason og Eyþór Gunnarsson á Gljúfrasteini sunnudaginn 17. júní

Á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins, á þjóðhátíðardaginn sjálfan þann 17. júní leiða saman hesta sína tveir af fremstu jazzleikurum þjóðarinnar.

Eyþór Gunnarsson píanóleikari hefur verið leiðandi afl hinnar síungu hljómsveitar Mezzoforte í rúm 30 ár, eða rúmlega lífaldur Ara Braga Kárasonar trompetleikara sem nýlega er snúinn aftur heim eftir langa útivist, m.a. í hringiðu jazzins í New York.

Saman sanna þeir að kynslóðabil er ekki til í jazzmúsik frekar en annarri list. Dagskrá þeirra byggist á sterkri meðvitund um hefðir í tónlist og hugrekki til að láta laglínuna og spunann leiðast í harmóníu út í óvissuna.

 

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag til 26. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2500 kr. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri.

Dagskrá stofutónleikanna í heild sinni.

Til baka í viðburði