23. september: Í stofunni heima. Tal og tónar á Gljúfrasteini

Laugardaginn 23. september kl. 14:00 heimsækir Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur og píanóleikari Gljúfrastein og heldur þar fyrirlestur ásamt því að leika á flygilinn. Viðburðurinn er haldinn í tengslum við sýninguna Að öðru leyti eftir ósk skáldsins sem nú stendur yfir í Listasal Bókasafns Mosfellsbæjar.

Erindi Árna Heimis fjallar um tónlistaráhuga Halldórs Laxness og tónleikahald á Gljúfrasteini á 5. og 6. áratugnum, þegar tónsnillingar á borð við Rudolf Serkin, Mstislav Rostropovitsj og Tatjönu Nikolaevu héldu þar konserta.

Einnig mun Árni Heimir leika verk eftir J.S. Bach, Mozart og Shostakovitsj, sem öll tengjast með einum eða öðrum hætti dálæti Halldórs á tónlist eða tónleikahaldi á Gljúfrasteini.

Enginn aðgangseyrir er á viðburðinn og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Áhugasamir geta að loknum viðburðinum á Gljúfrasteini heimsótt Listasal Bókasafns Mosfellsbæjar kl. 15:30 og fengið leiðsögn um sýninguna Að öðru leyti eftir ósk skáldsins. 

Viðburðurinn á Facebook

Nánar um sýninguna hér

---

Árni Heimir hefur komið fram víða um heim sem píanóleikari, kórstjóri og fræðimaður. Hann er höfundur tveggja bóka um tónlist (Jón Leifs – Líf í tónum, og Saga tónlistarinnar) sem báðar voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, og tveir hljómdiskar hans með tónlist úr fornum íslenskum handritum hafa hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin.

Til baka í viðburði