18. maí. Alþjóðlegi safnadagurinn: Heimilið að Gljúfrasteini opið fram á kvöld

Viltu gægjast inn um stofuskápana hjá Auði og Halldóri? Gljúfrasteinn tekur þátt í alþjóðlega safnadeginum 18. maí með því að færa heimilið úr klæðum safnsins þegar degi fer að halla og hleypa þannig gestum enn nær heimilislífinu en gert er aðra safndaga ársins.

 

Tónlist á fóninum, skápar opnaðir og munir dregnir fram, túrkísbláar flísar baðherbergisins fá að njóta sín fyrir opnum dyrum, Mosfellsdalurinn séður frá svölum skáldsins, þá verður eldhúsinu flíkað alþýðlega og loks gera starfsmenn hreint fyrir sínum dyrum.

 

Hér er ekki úr vegi að minna á nýútkominn bækling um hönnunar- og listmuni hér á Gljúfrasteini því hann er eins og gerður fyrir einmitt þennan safnadaginn. Með bæklingnum er í senn dregið fram í sviðsljósið það norræna handverk sem einkennir húsmuni heimilisins, sem og þau fjölmörgu listaverk er prýða veggi hússins.

 

 

Til baka í viðburði