Yfirlitssýning á verkum Karls Kvarans

07/01 2011

Listaverk eftir Karl Kvaran (1924-1989) hangir í anddyri Gljúfrasteins

Í nóvember síðastliðnum opnaði Listasafn Íslands yfirlitssýningu yfir verk Karls Kvarans og núna í janúar gefst síðasta tækifæri til að sjá þessa sýningu.

Karl Kvaran var fæddur á Borðeyri árið 1924. Hann stundaði listnám í Konunglega danska fagurlistaskólanum og lauk því árið 1948. Karl var einn af frumkvöðlum abstraktlistarinnar á Íslandi og fylgdi hann í kjölfar abstraktlistamannanna Svavars Guðnasonar og Þorvalds Skúlasonar. Á sjötta áratugnum sneri Karl sér að geometrískri abstraktlist, þar sem hann nýtti sér skarpa liti og skýrar línur til að skapa einfaldar, tvívíðar formmyndir.

Í kynningu sinni á yfirlitssýningunni segir Listasafn Íslands: „Eftir á að hyggja skar Karl sig úr hópi samferðamanna sinna sökum einstæðrar samkvæmni í verklagi og myndhugsun. Þótt hann hyrfi frá beinum línum hreinflatastefnunnar og hneigðist til sveigðrar og hringlaga formmótunar varð málaralist hans æ hreinni og beinni þótt tilfinning hans fyrir samspili vídda yrði að sama skapi margslungnari eftir því sem á leið. Litanotkun hans var sérkapítuli enda tefldi hann óragur saman gagnkvæmum litflötum með skærum skala sem rífur í sjóntaugarnar. Að þessu leyti brúaði Karl bilið milli abstraktmálverks og popplistar, en bak við þá leikni með litrófið bjó einstök teiknikunnátta.“

Karl hóf að starfa hér á Íslandi þegar íslensk myndlist blómstraði í góðæri eftirstríðsáranna. Íslenskir listamenn stofnuðu hreyfingar og hópa og kynntu Íslendingum fyrir nýjustu straumum og stefnum erlendis frá. Leið flestra ef ekki allra þessara listamanna lá upp í Mosfellsdalinn, að Gljúfrasteini, heimili Halldórs og Auðar Laxness. Gljúfrasteinn var um miðbik síðustu aldar sannkölluð menningar- og listamiðstöð landsmanna. Mörg verk eftir helstu listamenn þessara ára hanga á veggjum Gljúfrasteins, verk eftir listamenn eins og Svavar Guðnason, Nínu Tryggvadóttur, Louisu Matthíasdóttur, Kristján Davíðsson og Karl Kvaran.

Í anddyri Gljúfrasteins hangir eitt verk ef Karl Kvaran og bíður gestum Gljúfrasteins velkomna. Gljúfrasteinn er opinn alla daga nema mánudaga frá kl. 10-17.