Víkingur Heiðar og píanó skáldsins í nýju myndbandi

27/03 2020

Skyggnst á bak við tjöldin við gerð myndbandsins 

Í dag kemur út ný hljómplata píanóleikarans Víkings Heiðars Ólafssonar. Platan heitir Debussy-Rameau en verkin á henni eru eftir frönsku tónskáldin Claude Debussy (1862 - 1918) og Jean-Philippe Rameau (1683 – 1764).
„Ég upplifi svo rosalega sterkan þráð á milli þessara tveggja manna. Debussy var mjög hrifinn að verkum Rameaus en við vitum minna um hvað Rameau fannst um Debussy, skiljanlega.
Þetta eru samt tveir menn sem tengjast einhverjum ótrúlegum böndum í tónlistinni. Eftir því sem ég fór að kafa dýpra í verk þeirra þá fannst mér þeir í rauninni bara verða bræður,"  segir Víkingur Heiðar Ólafsson í viðtali í Víðsjá á Rás 1 en hlusta má á það hér.
Ítarlegt viðtal verður síðan við Víking Heiðar á Rás 1 á páskadag

Víkingur Heiðar hefur gert útgáfusamning við hið virta þýska plötufyrirtæki Deutsche Grammofon og á dögunum var myndband við kafla úr síðustu óperu Rameaus, Les Boréades, í útsetningu Víkings tekið upp í stofunni á Gljúfrasteini. Víkingur kallar þennan kafla The Arts and the Hours. Rameaus samdi óperuna þegar hann var áttræður, árið 1763 en hann lést ári síðar.   

Hér má sjá myndbandið en þegar þetta er ritað hefur verið horft á það oftar en 320.000 sinnum á Youtube. 

Myndbandið var framleitt af Republik sem er íslenskt framleiðslufyrirtæki. Það var Magnús Leifsson leikstjóri hjá Republik sem leikstýrði því fyrir Deutsche Grammofon og Víking. Að sögn Hannesar Friðbjarnarsonar sem starfar hjá Republik er þetta þriðja myndbandið sem fyrirtækið gerir fyrir Víking  Heiðar en hingað til hefur íslensk náttúra verið í forgrunni. Hannes segir að í þetta sinn hafi þau vilja breyta til og varð stofan á Gljúfrasteini fyrir valinu. ,, Það er gaman að gera tónlistarmyndbönd með listamanni úr klassíska heiminum þar sem þeir eru ekki eins vanir að gera það og poppararnir. Víkingur er smá poppstjarna í þessum klassíska heimi," segir Hannes og bætir við að starfsfólk Deutsche Grammofon hafi verið afar hrifið af myndbandinu og þá sérstaklega upptökunni á Gljúfrasteini vegna þess hve Halldór Laxness sé vel þekktur hjá unnendum bókmennta í Þýskalandi.