Tríó Kalinka flytur fjölbreytta dagskrá á stofutónleikum

16/06 2015

Tríó Kalinka

Tríó Kalinka flytur íslensk og rússnesk sönglög, þjóðlög, rómansa og dansa á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 21. júní.

Efniskráin er fjölbreytt, þar má heyra íslensk sönglög eftir 19. og 20. aldar tónskáld, fjöruga dansa frá bæði Íslandi og Rússlandi og loks rússnesk þjóðlög og rómansa. Af íslenskum lögum munu t.d. hljóma lögin Sólskríkjan eftir Jón Laxdal, Minning eftir Þórarinn Guðmundsson, Dagný eftir Sigfús Halldórsson og Maístjarnan eftir Halldór Laxness. Rússnesku lögin eru m.a. Svörtu augun, Kalinka, Bjarta nótt, Liljurnar og Björkin.

Tríóið er skipað Gerði Bolladóttur sópran, Flemming Viðari Valmundssyni harmonikkuleikara og Marinu Shulmina sem spilar á domra sem er sérstakt rússneskt hljóðfæri.

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.

Dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.