Síðasta sýningarvika

23/09 2014

Hér er horft úr stofunni og inn í borðstofuna. Stofan er klædd með viðarplötum en þetta mun hafa verið í fyrsta skipti sem slíkt var gert hér á landi. Veggmyndina til vinstri teiknaði Auður Laxness og saumaði. Formin klippti hún út úr steinbítsroði og saumaði á klæði. "Ég gerði þetta þegar Halldór fékk Nóbelinn," segir hún. "Hann var þá úti í tvo mánuði og ég var búin með myndina þegar hann kom heim." Fyrir neðan myndina eru kínverskur vasi og Búddastytta sem Auður keypti í Kína. "Ég keypti tvær svona styttur en önnur þeirra var tekin af mér, það mátti ekki flytja hana úr landi," segir hún. Yfir skenknum í borðstofunni hangir málverk eftir Svavar Guðnason. Til vinstri eru silfurkönnur, aðra gáfu vinnufélagar Auðar á Landspítalanum henni í brúðargjöf en hina keypti Halldór. Sögu silfurskálarinnar á miðjum skenk segir Auður sérkennilega. Þegar Halldór sigldi í fyrsta sinn utan eftir að heimsstyrjöldinni síðari lauk fór hann til Kaupmannahafnar. Þar hitti hann konu sem þekkti Jón Helgason prófessor, hún var frá einu Eystrasaltslandanna, ákafur aðdáandi Halldórs og vildi þýða verk eftir hann. Eftir að konan lést þá hafði lögfræðingur samband við Halldór og sagði konuna hafa ánafnað honum þessa skál í erfðaskrá sinni; Jón Helgason arfleiddi hún að ljósakrónu.

Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýninguna um Auði á Gljúfrasteini í Listasal Mosfellsbæjar en henni lýkur sunnudaginn 28. september.

Opið verður sem hér segir:
Mánudaga frá kl. 12:00 - 18:00
Þriðjudaga frá kl. 12:00 - 18:00
Miðvikudaga frá kl. 10:00 - 18:00
Fimmtudaga frá kl. 12:00 - 18:00
Föstudaga frá kl. 12:00 - 18:00
Laugardag frá kl. 12:00 - 17:00. Leiðsögn kl. 12 og 15
Sunnudag frá kl. 12:00 - 17:00. Leiðsögn kl. 15:00

Hægt er að óska eftir leiðsögn um sýninguna og er áhugasömum bent á að hringja í síma Gljúfrasteins 586 8066 eða senda tölvupóst á netfangið gljufrasteinn@gljufrasteinn.is