Scumann, Grieg og konurnar sem sagan hefur gleymt

03/08 2011

Á stofutónleikum Gljúfrasteins heiðra Dagrún Ísabella Leifsdóttir og Gisèle Grima tónlistarkonur sem hafa gleymst með tónlist og fróðleik um líf og störf þeirra.

Dagrún Ísabella Leifsdóttir sópransöngkona og Gisèle Grima, ungur píanisti frá Möltu, halda tónleika sem þær kalla Music Women á Gljúfrasteini næsta sunnudag, þann 7. ágúst. Á tónleikununum vekja þær athygli á tónlistarkonum sem hafa gleymst, konum eins og Clöru Schumann og Ninu Grieg með tónlist en einnig með fróðleik um líf og störf þeirra. Hægt er að lesa viðtal við Dagrúnu sem birtist í skagfirska tímaritinu Feyki hér.

Tónleikarnir hefjast klukkan 16.00 og aðgangseyrir er 1.000 kr.

 

Dagrún Ísabella Leifsdóttir hóf ung tónlistarnám og hefur sungið á sviði frá því hún var 7 ára. Ísabella útskrifaðist með frá óperudeild Royal Northern College of Music í Manchester árið 2009. Á meðan námi stóð söng hún ýmis hlutverk í óperum og senum sem settar voru upp innan skólans. Að námi loknu hefur Ísabella komið fram á tónleikum og viðburðum hérlendis og í Englandi.

Gisèle Grima starfar sem píanóleikari í heimalandi sínu, Möltu. Einleikstónleikar hennar hafa farið fram víðsvegar á Möltu, Sikiley, Finnlandi, Frakklandi, Sýrlandi og Englandi. Gisèle hefur lokið námi frá Royal Northern College of Music og Napier háskólanum í Edinborg. Gisèle hefur nýlega komið fram sem konsert píanisti þar sem hún lék Píanókonsert í C dúr eftir Ravel með Filharmóníusveit Möltu undir stjórn Michael Laus.