Salka Valka sýnd á RÚV á sunnudag

30/10 2015

Halldór Laxness með nokkrum samstarfsmönnum og aðstandendum kvikmyndarinnar Sölku Völku. Í fangi skáldsins situr dóttir hans, Sigríður Halldórsdóttir

Kvikmyndin Salka Valka frá árinu 1954 verður sýnd á RÚV sunnudaginn 1. nóvember kl. 21:55. Að myndinni lokinni verður sýndur stuttur heimildarþáttur þar sem Halldór Laxness greinir frá skrifum Sölku Völku, sýndar verða myndir frá tökustað myndarinnar og skyggnst á bakvið tjöldin. Seilst var í gamalt safnaefni RÚV við gerð þáttarins.


Salka Valka kom út í tveimur hlutum 1931 - 1932 og markar tímamót á ferli Halldórs Laxness í að minnsta kosti tvenns konar skilningi. Hún er fyrsta þjóðfélagslega skáldsaga hans og ruddi honum auk þess braut á erlendan bókamarkað. Upphaflega átti sagan að verða að kvikmynd í Hollywood undir heitinu A woman in pants. Til stóð að senda leikflokk til Íslands til að taka myndina en ekkert varð úr.

 

Árið 1954 var svo ráðist í það stórvirki að kvikmynda Sölku Völku. Sænska kvikmyndafyrirtækið Nordisk Tonefilm stóð að verkinu í samvinnu við Edda-film á Íslandi. Leikstjórn var í höndum Arne Mattsons og þekktir sænskir leikarar fóru með öll meginhlutverk. Tökur fóru fram bæði í Svíþjóð og á Íslandi. Öll inniatriði voru tekin upp í Stokkhólmi en útisenur í Grindavík, á Kjalarnesi og í Hvalfirði. 

 

"Salka Valka er óvenjulega góð kvikmynd. Í henni er ef til vill ýmislegt, sem kann að koma Íslendingi annarlega fyrir sjónir; en þess ber að gæta að hún er umfram allt sænsk kvikmynd og ég held ekki að sænsk kvikmyndlist hafi áður komizt hærra."


Þannig tók Halldór Laxness til orða um kvikmyndina, í viðtali sem Þjóðviljinn hafði úr danska blaðinu Land og folk, en Halldór dvaldi í Kaupmannahöfn þegar myndin var frumsýnd hér á landi.


Ítarlega umfjöllun um framleiðsluferli Sölku Völku og viðtökur Íslendinga á kvikmyndinni má finna í grein Arnalds Indriðasonar úr Morgunblaðinu þann 7. október 1995.