Salka Valka og Atómstöðin í Bíó Paradís í kvöld

26/04 2012

Tinna Gunnlaugsdóttir í hlutverki Uglu í kvikmyndinni Atómstöðin sem var frumsýnd árið 1984.

Í kvöld verður Salka Valka í Bíó Paradís klukkan 17:40 og Atómstöðin klukkan 20:00. Þetta er síðasti séns að sjá Sölku Völku á hvíta tjaldinu að þessu sinni.

Nú eru aðeins þrjú sýningarkvöld eftir á kvikmyndahátíðinni Laxness í lifandi myndum en síðustu sýningar verða á laugardagskvöldið.

Salka Valka var frumsýnd árið 1954. Þetta er sænsk mynd og leikstjórn var í höndum Arne Mattsson. Leikarar: Gunnel Broström, Birgitta Pettersson, Folke Sundquist, Erik Strandmark, Margaretha Krook, Rune Carlsten, Nils Hallberg,Sigge Fürst og Ann-Mari Adamsson. Myndin er sýnd með íslenskum texta.

Salka Valka kom út í tveimur hlutum árin 1931 - 1932. Sagan gerist á Óseyri við Axlarfjörð þar sem alþýðan lifir við kröpp kjör og Bogesen kaupmaður ræður örlögum hvers manns. Í sögunni eru Salka Valka og Arnaldur í forgrunni en litlu minna áberandi eru Sigurlína, móðir Sölku, og Steinþór ástmaður hennar og örlagavaldur í lífi þeirra mæðgna.

Atómstöðin var frumsýnd árið 1984. Þorsteinn Jónsson leikstýrði myndinni en aðalleikarar voru: Tinna Gunnlaugsdóttir, Gunnar Eyjólfsson, Helgi Björnsson, Jónína Ólafsdóttir og Sigrún Edda Björnsdóttir.

Atómstöðin var gefin út árið 1948. Þar segir af Uglu, bóndadóttur að norðan, sem kemur til Reykjavíkur að læra á orgel. Hún ræður sig í vist hjá Búa Árland, sem er þingmaður og heildsali, og sækir tónlistartíma hjá Organistanum. Inn í söguna blandast meðal annars samningar um bandaríska herstöð í Keflavík auk annarra hitamála upp úr seinna stríði og ádeilur á borgaraleg gildi og vestrænt siðferði.

Kvikmyndir eftir verkum Halldórs Laxness hafa verið til sýninga í Bíó Paradís frá því á mánudag. Hér má sjá heildardagskrána.

Hægt er að nálgast miða á midi.is eða í Bíó Paradís eftir klukkan 17.