Ravel og Viardot á Gljúfrasteini

17/08 2010

Sesselja Kristjánsdóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir, söngur og píanó

Sunnudaginn 22. ágúst næstkomandi klukkan 16 munu Sesselja Kristjánsdóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir flytja verk eftir Maurice Ravel og Pauline Viardot á stofutónleikum Gljúfrasteins.

Maurice Ravel (1875-1937) er þekkt nafn í tónlistarsögunni en á tónleikunum verða flutt „Chants populaires“, fjögur þjóðlög útfærð af mikilli smekkvísi fyrir rödd og píanó. Ljóðin eru á fjórum tungumálum: spænsku, frönsku, ítölsku og hebresku. Einföld þjóðlögin njóta sín með litríkum píanóparti sem ýtir undir og kallar enn betur fram uppruna þeirra og ólík einkenni.

Pauline Viardot (1821-1910) er minna þekkt en engu að síður mjög merkileg kona. Viardot var mezzósópransöngkona, tónskáld og kennari. Hún þótti ekki aðeins einstaklega vel gefin heldur hafði hún mikil áhrif á listalíf Evrópu á 19.öld. Hún var náin vinur margra þekktra listamanna svo sem Clöru Schumann, Brahms og Chopin. Mörg verk voru sérstaklega samin fyrir hana eins og Alt Rapsodía Brahms eða tileinkuð henni eins og óperan Samson og Dalila. Þá var hún ötul við að syngja ólíka tónlist og kynna nýja strauma. Sönglög hennar eru lagræn og bera vott um næmni enda falla þau einstaklega vel að söngröddinni. Hún var mikil tungumálakona og á tónleikunum má heyra sönglög hennar við franskt, ítalskt og tvö spænsk ljóð sem vissulega bera keim af uppruna þessarar fjölhæfu listakonu.

Sesselja Kristjánsdóttir hefur sinnt flutningi óperu-, ljóða-, óratoríu- og kammertónlistar jöfnum höndum. Hún hefur komið fram á fjölda tónleika hér heima og erlendis, þar á meðal með Sinfóníuhljómsveit Íslands en með henni söng hún meðal annars Missa Solemnis eftir Beethoven undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Sesselja var fastráðin við Íslensku óperuna á árunum 2002 til 2004. Síðan þá hefur hún verið þar reglulegur gestur. Meðal hlutverka hennar á óperusviðinu eru Rosina í Rakaranum í Sevilla, Öskubuska í samnefndri óperu Rossinis, Cherubino í Brúðkaupi Figarós, Nachbarin í Mavra eftir Stravinsky, Lis í Wie werde ich reich und glücklich? eftir Spoliansky, Charlotte í Werther, Betlikerlingin í Sweeney Todd og Lola í Cavalleria rusticana eftir Mascagni. Í haust mun hún fara með hlutverk Maddalenu í óperu Verdis Rigoletto í Íslensku óperunni.

Anna Guðný Guðmundsdóttir hefur starfað á Íslandi í yfir aldarfjórðung við margvísleg störf píanistans, aðallega í samleik ýmiss konar en einnig í einleikshlutverki. Anna Guðný hefur verið píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur um langt árabil. Hún hefur leikið inn á um þrjátíu geisladiska og plötur í samvinnu við ýmsa listamenn. Samstarf hennar og Sigrúnar Hjálmtýsdóttur sópransöngkonu, hefur staðið síðan á námsárunum í Lundúnum. Hún hefur komið fram á Listahátíð í Reykjavík og leikur reglulega innan raðar Tíbrár-tónleikanna í Salnum í Kópavogi. Anna var bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2002. Hún kenndi við tónlistardeild Listaháskóla Íslands frá stofnun hennar 2001 til 2005, en það haust var hún ráðin píanóleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2004 sem flytjandi ársins og aftur árið 2009, en þá hlaut hún verðlaunin fyrir flutning sinn á verkinu „Tuttugu tillit til Jesúbarnsins“ eftir Olivier Messiaen í september 2008.

Aðgangseyrir er 1.000 krónur og eru allir boðnir velkomnir.

Tónleikar Sesselju og Önnu Guðnýjar eru þeir næstsíðustu í stofutónleikaröð Gljúfrasteins á þessu sumri en í júní, júlí og ágúst hefur tónlistin ómað á safninu á hverjum sunnudegi klukkan 16.

Við viljum vekja athygli á að Mos-Bus ekur ókeypis um Mosfellsbæ út ágústmánuð. Ferðamannastrætóinn keyrir um götur bæjarins alla daga vikunnar og stoppar á öllum helstu áfangastöðum hans. Gljúfrasteinn er að sjálfsögðu einn af þeim stöðum. Með þessu er verið að bjóða þægilegan og einfaldan möguleika fyrir Íslendinga jafnt og útlendinga til þess að upplifa allt það helsta sem bærinn hefur upp á að bjóða.