Þrautseigja, þunglyndi og bækur

31/10 2016

David S. Baldwin

Gljúfrasteinn – hús skáldsins stendur fyrir viðburði í Hannesarholti fimmtudaginn 3. nóvember 2016 kl. 20.00.
David Baldwin prófessor í geðlæknisfræðum við Háskólann í Southampton, mun greina frá rannsókn sinni „Self-standing folk: representation of resilience in the novels of Halldór Laxness“. David fékk brennandi áhuga á verkum Halldórs eftir að hafa lesið Sjálfstætt fólk. Í kjölfarið las hann allar skáldsögur Laxness sem komið hafa út á ensku og heillaðist sérstaklega af persónusköpun skáldsins, þrautseigju og seiglu persónanna sem búa við erfiðar aðstæður. Þessi skáldaði veruleiki og innsæi sem persónur Halldórs Laxness búa yfir er í samræmi við niðurstöður rannsókna á áhættuþáttum varðandi sjálfsvíg og á því hvernig manneskjan bregst á einstaklingsbundinn hátt við mótlæti. Í rannsóknum sínum hefur David skoðað leiðir til að bæta líðan sjúklinga sem þjást af þunglyndi og kvíða. Niðurstöður eigindlegra rannsókna á áhættuþáttum sjálfsvíga á sviði þjóðfræði, það er í ólíkum samfélögum, urðu til þess að hann ákvað að kanna hvort auka mætti þekkingu á þessum áhættuþáttum með því að greina hvernig viðkvæmni og þrautseigja andspænis erfiðum aðstæðum birtist í skáldsögum Laxness, bæði á einstaklings- og samfélagssviðinu.


Óttar Guðmundsson geðlæknir og Steinunn Inga Óttarsdóttir bókmenntafræðingur munu bregðast við hugleiðingum Davids, auk þess sem gestum verður gefinn kostur á að spyrja spurninga og taka þátt í samtalinu.  Jórunn Sigurðardóttir stjórnar umræðum.
Viðburðurinn fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis.