Landaparís er gripur vikunnar

19/05 2020

Gripur vikunnar - Landaparís 

Gripur vikunnar á Gljúfrasteini er púði sem Auður Laxness hannaði og saumaði út.  Hann sýnir vel hvernig listakonan Auður notaði útsaum til að skrásetja þræði úr eigin lífi.  Púðann Landaparís saumaði hún eftir eigin mynstri en áhrifa gætir frá módernískum verkum í kúbískum stíl.  Munstrið byrjaði hún að hanna árið 1948 í fyrsta sinn sem hún kom til Parísar þar sem hún sótti meðal annars sýningu Pablo Picasso í Galerie Louise Leiris og eru áhrif hans augljós.
Sumarið 2018 þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu Auðar var útbúin uppskrift að púðanum Landaparís og er hún til sölu í fallegri gjafaöskju í safnabúðinni að Gljúfrasteini.